Einar Kristinn Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að sjálfstæðismenn hafi hvað eftir annað kallað eftir samstöðu allra flokka um nauðsynlegar aðgerðir, í atvinnumálum, í málefnum heimilanna og efnahagsmálum. Á það hafi ekki verið hlustað.
Hann segir á bloggi sínu að það se gott að Jóhanna Sigurðardóttir hafi skipt um skoðun og skilji að ríkisstjórnin er bæði máttvana og hefur þrotið örendið.
„ En sorglegt er að það þurfi 8 þúsund manna mótmæli við Alþingishúsið til þess að skilja það sem hefur blasað við öllum landsmönnum um langa hríð," skrifar Einar Kristinn og bætir við að það sé meðvituð og markviss stefna stjórnarflokkanna að fara ekki í samstarf flokka.
„Því eins og við munum lýstu báðir
flokkarnir því yfir að markmið þeirra væri að tryggja að
Sjálfstæðisflokknum - og eftir atvikum Framsóknarflokknum - yrði haldið
frá öllum áhrifum við landstjórnina. Nú þyrfti nýja stefnu og nýjar
áherslur. Stefnu og áherslur VG og Samfylkingar. Þessu hefur
samviskusamlega verið fylgt eftir. Það verður nefnilega aldrei samstarf á
milli flokka á Alþingi, þegar þeir sem landinu stýra vilja ekki slíkt
samstarf," skrifar Einar Kristinn á blogg sitt.