Ekki stórfelld frávik frá hagspá

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/RAX

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði þegar hann mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs á Alþingi í dag, að í ljósi þeirrar óvissu, sem við væri að glíma, væri ekki mikið frávik frá nýjustu hagvaxtarspám, sem birst hafa fyrir næsta ár, og hagspá Hagstofunnar, sem kom út í júní og fjárlagafrumvarpið byggir á. 

Hagvaxtarspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir 3,2% hagvexti á næsta ári. Steingrímur sagði, að fullyrt hefði verið að þessar forsendur væru brostnar vegna þess að veigamikil forsenda væri framkvæmdir við álver í Helguvík. Í spánni væri hins vegar aðeins gengið út frá fyrsta áfanga álversframkvæmda í Helguvík en þar væri ekki gert ráð fyrir jafn mikilli fjárfestingu í álverinu í Straumsvík og nú hefur verið ákveðin.

Þá sagði Steingrímur spá Hagstofunnar gerði ráð fyrir meira atvinnuleysi en nú væri útlit fyrir, minni styrkingu raungengis en orðið hefði og minni hagvexti í ýmsum viðskiptalöndum Íslendinga en raun bæri vitni. Sagði Steingrímur, að almennt væri óvissa mjög mikil við aðstæður af því tagi, sem nú væru í efnahagsmálum og alls ekki bundin við einstök stóriðjuverkefni.

Steingrímur sagði, að Seðlabankinn hefði síðsumars birt spá um 2,5% hagvöxt og nýjasta hagvaxtarspáin væri frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, um 3% vöxt á næsta ári. 

„Í raun, í ljósi þeirrar óvissu sem við er að glíma, er ekki hægt að segja að stórfellt frávik sé í nýjustu spánum," sagði Steingrímur. Það væri hins vegar áhyggjuefni, ef kreppan leiddi til versnandi efnahagsástands í helstu viðskiptalöndum Íslendinga á næstunni og þannig til versnandi viðskiptakjara fyrir Ísland. Sem stendur væri þó ekki ástæða til að hafa af því áhyggjur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka