Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að þótt fulltrúar allra flokka hafi í sumar unnið sameiginlega að úrræðum fyrir verst stöddu heimilin, þá skorti enn almennar aðgerðir til að forða því að fleiri heimili þurfi að nýta þessi greiðsluvandaúrræði.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði í dag að aðgerðir varðandi skuldavanda heimila og fyrirtækja hafi verið unnar á þverpólitískum vettvangi og náðst hefði samstöðu allra flokka í þinginu um öll
skref sem hefðu verið tekin í því máli. Í vor hafi félags- og tryggingamálanefnd þingsins setið yfir þeim málum og náð einróma samstöðu um niðurstöðuna.
Unnur Brá, sem situr í félagsmálanefnd, sagði að taka þurfi á grunnvandanum, þeim að það séu ekki aðeins gengistryggðu lánin, sem hafa hækkað mikið frá hruni, heldur einnig hin innlendu verðtryggðu lán. Enginn vilji væri hins vegar hjá stjórnarflokkunum að taka þá því máli.
Þá lægi ekki fyrir greining á vandanum þótt einfalt væri að nálgast þær upplýsingar hjá fyrirtækinu Creditinfo. „Við höfum allan tímann lýst yfir fullum vilja til að vinna við stjórnvöldum að þessum málum og þetta er brýnasta viðfangsefnið nú," sagði Unnur Brá.