Hugmyndir um garð út í sjó

Reynt hefur verið að aka möl í skörð í Víkurfjöru …
Reynt hefur verið að aka möl í skörð í Víkurfjöru til að draga úr landbroti. mbl.is/Jónas

Til skoðunar er að byggja garð út í sjó við Vík í Mýrdal. Siglingastofnun er að athuga hvort slíkur garður getur komið í stað sjóvarnargarðs með ströndinni.

Sjórinn hefur á undanförnum árum brotið sífellt meira af sandinum framan við Víkurþorp og er kominn langt inn fyrir þau mörk sem miðað hefur verið við að þyrfti að verja. Eru nú aðeins nokkrir tugir metra í íþróttavöll sveitarfélagsins. 

Brýn nauðsyn er talin á því að hefja framkvæmdir við nýjan flóðvarnargarð og var 100 milljónum veitt til byrjunarframkvæmda á fjárlögum þessa árs. Ekki hefur verið hægt að hefjast handa vegna þess að aðalskipulag hefur ekki verið staðfest. Vegna kostnaðar hefur Siglingastofnun viljað gera varnargarð ofar í fjörunni en meirihluti heimamanna.

Í tillögu að nýju aðalskipulagi Mýrdalshrepps sem hreppsnefnd hefur samþykkt og hefur beðið afgreiðslu hjá umhverfisráðuneyti í marga mánuði er gert ráð fyrir því að Hringvegurinn komi í framtíðinni í gegn um göng í gegn um Reynisfjall og við sjóvarnargarð framan við Víkurþorp. Skipulagið var umdeilt en meirihluti hreppsnefndar samþykkti þessa útfærslu.

Nýjar hugmyndir hafa komið upp og eru nú til athugunar hjá Siglingastofnun. Það er að gera garð út í sjó við Víkurá, á 5-6 metra dýpi. Kristján Helgason, deildarstjóri hjá Siglingastofnun, segir að sérfræðingar stofnunarinnar séu að reikna út efnisburð við slíkan garð. Líkur séu taldar á því að efni myndi safnast upp vestan við garðinn, á milli hans og Reynisfjalls, framan við meginhluta þorpsins.

Kristján tekur fram að þetta sé aðeins einn af þeim kostum sem til athugunar séu. Áfram verði unnið að málinu í samvinnu við heimamenn og ráðgert sé að senda þeim yfirlit um helstu kosti og kostnað við þá á næstunni.

Segir hann að hægt verði að hefjast handa við framkvæmdir fljótlega eftir að skipulag verður staðfest.

Ásgeir Magnússon sveitarstjóri telur að garður út í sjó kynni að vera góð lausn á vandanum. Miklu minna mál yrði að verja sandbakkann eftir það.

Fjárveiting lánuð í Landeyjahöfn

Kristján staðfestir að um það bil helmingur af þeim 100 milljónum sem átti að nota í sjóvarnargarðinn í Vík á þessu ári hafi verið varið til lokaframkvæmda við Landeyjahöfn, þannig þó að samsvarandi fjárhæð kæmi til baka á næsta ári, þegar framkvæmdir hæfust.

Reiknað hefur verið með því að sjóvörn í Víkurfjöru kosti nokkur hundruð milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka