Félags- og tryggingamálanefnd Alþingis boðar bankana og formann eftirlitsnefndar aðgerða í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja á sinn fund á miðvikudagsmorgun, segir í tilkynningu frá formanni nefndarinnar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, alþingismanni.
„Fyrir tæpu ári lagði félags- og tryggingamálanefnd mikið kapp á að setja löggjöf til að skapa ramma utan um afskriftir fjármálastofnana hjá heimilum og fyrirtækjum. Nefndin setti jafnframt lög um eftirlitsnefnd með aðgerðunum.
Í vor samþykki Alþingi lög um frjálsa greiðsluaðlögun einstaklinga og smærri fyrirtækja og svo virðist sem fjármálastofnanir hafi ekki tekið forystu í því að ná frjálsum samningum við lántakendur sína sem eiga í alvarlegum vanda.
Lögin hafa ekki skilað þeim árangri sem Alþingi vænti," segir Sigríður Ingibjörg í fréttatilkynningu.
Á fundinum mun fjármálastofnunum gefast kostur á að útskýra mál sitt og skýra frá öðrum aðgerðum í þágu heimila og fyrirtækja.
„Formaður félags- og tryggingamálanefnd telur mikilvægt að bankarnir horfist í augu við það alvarlega ástand sem ríkir á heimilum og í fyrirtækjum landsins. Að öðrum kosti mun Alþingi þurfa að grípa til alvarlegri aðgerða enda er mikill óróleiki í samfélaginu, fólk óttast framtíðina og velferð sína og fyrirtækin þurfa að komast í rekstrahæft ástand til að skapa verðmæti til að koma okkar upp úr öldudal bankahrunsins.
Félags- og tryggingamálanefnd mun halda reglulega fundi með fjármálastofnunum enda hagsmunir og velferð almennings í húfi," segir í fréttatilkynningu frá formanni nefndarinnar.