Ófriðarbál á Austurvelli

Mikill fjöldi mótmælti á Austurvelli í gærkvöldi, flestir friðsamlega en …
Mikill fjöldi mótmælti á Austurvelli í gærkvöldi, flestir friðsamlega en tiltölulega lítill hópur lét ófriðlega. Kveikt var í vörubrettum og fleiru svo úr varð mikið bál. mbl.is/Júlíus

Grjót buldi á bílum þingmanna og ráðherra þegar þeim var ekið upp úr bílakjallara Alþingis seint í gærkvöldi og dæmi voru um að veist væri að alþingismönnum þegar þeir yfirgáfu þinghúsið. Háværum og fjölmennum mótmælum á Austurvelli var þá um það bil að ljúka.

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn sagði að lögregla hefði ekki getað komið í veg fyrir grjótkastið. Mótmælendur hefðu kastað því af töluverðu færi, hefðu einfaldlega látið vaða ofan í kjallarann og hitt einhverja bíla. Áður hafði skoteldatertu verið kastað ofan í kjallarann.

Gler brotnaði í um 30 rúðum þinghússins og mikill sóðaskapur hlaust af eggjakasti og fleiru.

Jafnvel þótt lögregla hefði séð til grjótkastaranna hefði hún átt erfitt um vik í þéttum hópi mótmælenda. Geir Jón telur að um fimm þúsund manns hafi verið á Austurvelli þegar mest var og eitt til tvö þúsund manns á götunum í kring. Þetta séu fleiri en hafi tekið þátt í mótmælafundum sem haldnir voru í ársbyrjun 2009, í hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu, að því er fram kemur í ítarlegri umfjöllun um mótmælin í gærkvöldi í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka