Ofvaxið getu ríkisstjórnarinnar

Gífurlegt magn af rusli safnaðist saman fyrir utan framhlið Alþingishússins.
Gífurlegt magn af rusli safnaðist saman fyrir utan framhlið Alþingishússins. Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

„Þingmenn lifa ekki í mínum veruleika. Það er alveg á hreinu,“ segir Arndís Einarsdóttir, stofnandi Facebook-síðunnar þar sem hvatt var til mótmælanna í kvöld. Arndís vill neyðarstjórn á Alþingi með aðkomu erlendra aðila. „Okkar fólk er ekki að ráða við þetta. Það er alveg á hreinu.“

Hún gagnrýnir aðspurð þau ummæli Ögmundar Jónassonar dómsmálaráðherra að stjórnin geti ekki lofað upp í ermina á sér með loforðum um aðgerðir til handa heimilum í skuldavanda. 

Bætur hrökkva vart fyrir leigu 

„Ég segi við hann: „Farðu úr jakkanum, brettu upp ermar og farðu að gera eitthvað,““ sagði Arndís og beindi orðum sínum að ráðherranum. „Það er verið að bera út þúsundir manna. Atvinnuleysisbætur eru jafn miklar og leiga á tveggja herbergja íbúð. Það gengur ekki upp. Það reikningsdæmi gengur ekki upp fyrir nokkurn mann.

Ójöfnuður er að aukast mjög mikið. Þetta er að verða þjóðfélag fátæktar. Það eru fáir sem eiga peningana. Hinir eiga ekki peninga. Það eru ótal sögur af fólki sem á ekki fyrir mat. Hvenær ætla stjórnvöld að vakna?“

Gefist ekki upp 

Vinkona Arndísar, Valdís Steinarsdóttir, hvetur fólk í miklum fjárhagsvanda til að gefast ekki upp. Nú sé tími mótmæla og samstöðu.

„Ég vil biðja fólk um að gefast ekki upp. Ég vil biðja fólk um að vera ekki eitt heima hjá sér með áhyggjur af því að eiga ekki fyrir nesti handa börnunum sínum eða hvað það er sem íþyngir heim.

Ég bið fólk um að vera ekki eitt heima hjá sér með áhyggjur af því að það þurfi að fara úr húsnæði sínu eftir mánuð en að leigumarkaðurinn geti ekki tekið við því. Ég segi við þetta fólk: Farið út á göturnar! Berjist gegn óréttlætinu! Það er það sem ég vil segja við almenning á Íslandi!“ segir Valdís í hvatningarorðum.

Aðspurðar hvort þær hafi búist við því að upplifa svona tíma á Íslandi segjast þær hvorugar nokkru sinni hafa gert sér í hugarlund að þessi staða gæti komið upp í íslensku samfélagi.  

Nánar er fjallað um aðdraganda mótmælanna hér.

Arndís Einarsdóttir og Valdís Steinarsdóttir settust niður í augnablik með …
Arndís Einarsdóttir og Valdís Steinarsdóttir settust niður í augnablik með blaðamanni í anddyri Hótel Borgar. Morgunblaðið/Júlíus Sigurjónsson
Lögreglumenn taka niður girðingu sem þeir höfðu reist fyrir framan …
Lögreglumenn taka niður girðingu sem þeir höfðu reist fyrir framan þinghúsið fyrr um kvöldið. Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
Fánar mótmælenda blakta í mannhafinu.
Fánar mótmælenda blakta í mannhafinu. Morgunblaðið/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert