Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að gerð verði sjálfstæð og óháð rannsókn á einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Landsbankanum og Búnaðarbankanum.
Fjórtán þingmenn Samfylkingarinnar flytja tillöguna undir forystu Þórunnar Sveinbjörnsdóttur þingflokksformanns.
Í greinargerð er vísað til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og bréfs Jóhönnu Sigurðardóttur til þingmannanefndar sem um hana fjallaði.
Markmið rannsóknarinnar á að vera að varpa ljósi á rás atburða við sölu Landsbankans og Búnaðarbankans árið 2002 svo að ljóst sé hvar í stjórnkerfinu, hvenær og hvers vegna hver einasta veigamikil ákvörðun í því ferli var tekin. „Aðeins þannig má draga réttan lærdóm af þessu umdeilda söluferli og byggja á þeim lærdæmi við setningu laga og reglna um einkavæðingu ríkisfyrirtækja,“ segir í greinargerð.
Í tillögunni er gert ráð fyrir að skipuð verði þriggja manna nefnd til að rannsaka málið og skila skýrslu um hana innan sex mánaða. Nefndin fái sömu heimildir til skýrslutöku og gagnaöflunar og rannsóknarnefnd Alþingis.