Þór: Stefnuræða í miðri byltingu

Jóhanna Sigurðardóttir flytur stefnuræðu sína í gærkvöldi.
Jóhanna Sigurðardóttir flytur stefnuræðu sína í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir daginn í gær hafa verið skrýtinn á Alþingi. Hann segir að það hafi verið grátlegt að heyra hversu innantóm stefnuræða forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, var. Segir Þór á bloggi sínu að þrír þingmenn fyrir utan þingmenn Hreyfingarinnar hafi gert sér grein fyrir ástandinu.

„Undir hávaðanum og inni í víggirtu þinghúsinu var gerð tilraun til að halda þingfund um stefnuræðu forsætisráðherra.  Tilraun segi ég því ræður flestra voru slíkt kall út í tómið að grátlegt var að heyra og stefnuræðan var innantóm. 

Þó var ljóst að utan þingmanna Hreyfingarinnar voru þrír aðrir sem gerðu sér grein fyrir ástandinu og merkilegt nokk tveir af þeim voru stjórnarþingmenn en þau Valgerður Bjarnadóttir og Ólafur Gunnarsson töluðu á skynsamari nótum en ég hef heyrt þingmenn gera lengi. 

Einnig var Sigmundur Davíð með á nótunum.  Það er því ekki öll von úti enn að stjórnarflokkarnir slíti samstarfinu áður en allt fer í bál og brand.  Það var hins vegar grátlegt að hlusta á forystumenn ríkisstjórnarinnar tala inn í tómið undir dúndrandi hávaða.  Ekki sást vel út um einn einasta glugga sem flestir voru sprungnir og voru kámugir í eggjum og málningu.  Úti við grillti óljóst í fjöldann og bálköstinn," segir Þór á bloggi sínu á Eyjunni.

Þór segir að fróðlegt verði að sjá hvað stjórnarliðar skilgreini sem samstarf.  „ Krafa almennings er kosningar og hrunverja burt af þingi og róttæka leiðréttingu á skuldavanda heimilanna.  Eftir slíkt hrun sem gerðist hér er það ekki nema eðlilegt að það taki a.m.k. tvennar ef ekki þrennar kosningar til að hreinsa út hrunverjana og hrunhugsunina. 

Að halda áfram með sömu áhöfn er ekki annað en ávísun á annað strand.  Við höfum talað fyrir því sem við köllum „þjóðstjórn án Sjálfstæðisflokksins” enda vandséð hvernig sá flokkur getur af siðferðisástæðum einum saman tekið þátt í að stjórna hér landinu.  Þótt vilji allra væri ef til vill fyrir hendi er vandséð hvernig þessir flokkar gætu náð saman nema þá um einhver ákveðin lágmarksatriði er snúa að vanda heimilana," segir Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert