Íbúi við Furuás í Hafnarfirði hefur í meira en heilt ár reynt að fá bæjaryfirvöld í Hafnarfirði til að fjarlægja byggingakrana sem hefur staðið við hálfklárað hús við götuna. Kraninn hefur nú verið fjarlægður eftir að skipulags- og byggingaráð bæjarins samþykkti að leggja dagsektir á eiganda hússins.
Loftur B Gíslason segir að þetta mál sé búið að taka ótrúlega langan tíma. Sá sem hóf að byggja húsið hafi orðið gjaldþrota og húsið og byggingakraninn komist í eigu banka. Hann segir að auk kranans sé þarna byggingarefni og alls kyns drasl. Húsið sé opið og slysagildra fyrir börn.
Loftur segir að langt sé síðan framkvæmdir við húsið stöðvuðust. Hann hafi haft samband við bæinn símleiðis fyrir meira en einu og hálfu ári. Í nóvember sendi hann formlegt bréf til bæjarins. Loftur segir að það sé hins vegar ekki fyrr en núna að kraninn hafi loksins verið fjarlægður. Lóðin sé áfram ófrágengin og ekki sé búið að loka húsinu.
Loftur segist hafa fengið þau svör fyrir um tveimur mánuðum að bankinn ætli að setja húsið í söluferli og kaupandinn muni taka að sér að ganga frá lóðinni. Húsið sé hins vegar enn óselt.
Loftur furðar sig á að bærinn skuli ekki hafa fylgt þessu máli fastar eftir. Það sé ákvæði í samningum um að hann geti brugðist við ef lóðarhafi gangi ekki frá byggingunni.
Í fundargerð kemur fram að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi í byrjun desember í fyrra gert lóðarhafa skylt að fjarlægja byggingarkrana, byggingarefni og annað lausaefni af lóðinni án tafar. Í lok apríl hótar bærinn að beita dagsektum verði ekki brugðist við erindinu og 20. september er síðan samþykkt að leggja á dagsektir.