Ríki og sveitarfélög verða að sýna gott fordæmi og taka til endurskoðunar eftirgjöf skattskulda og opinberra gjalda því oft hafa lágar skuldir við ríki eða sveitarfélög orðið þess valdandi að aðili getur ekki fengið sértæka skuldaaðlögun. Þetta kemur fram í skýrslu eftirlitsnefndar um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.
Skýrslan var kynnt í ríkisstjórn og
fyrir formönnum stjórnarandstöðuflokka í dag. Markmið laga um sértæka
skuldaaðlögun er að hraða endurreisn íslensks efnahagslífs og koma
jafnvægi á skuldir heimila og fyrirtækja. Nefndin hefur metið árangur af
starfi fjármálafyrirtækjanna við skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja og
kemur fram með ábendingar í skýrslunni um hvað betur megi fara.
Meginniðurstaða skýrslunnar varðandi einstaklinga er sú að fáir aðilar hafa nýtt sér sértæka skuldaaðlögun, en eingöngu 128 einstaklingar hafa gengið frá endanlegum samningum.
Nefndin beinir því til stjórnvalda að þau beiti sér fyrir því að samkomulag við aðila fjármálamarkaðar verði endurskoðað. Þörf sé á að skoða lækkun hærri marka veðsetningarhlutfalls í a.m.k. 100%, til að ná jafnvægi á virði eigna og greiðslugetu gagnvart fjárskuldbindingum með hærra hlutfalli. Lægri mörk veðsetningarhlutfalls verði einnig lækkuð. „Eins og staðan er virðist úrræðið einkum henta þeim sem eru með tekjur yfir meðallagi og hærri.
Nefndin segir nauðsynlegt að settar verði reglur um meðferð sjálfskuldarábyrgða og lánsveða. Tryggja verði einnig að umboðsmaður skuldara hafi nægilegan fjölda starfsmanna til að afgreiða mál án mikilla tafa.
Hvað fyrirtækin bendir nefndin á að eingöngu 51 fyrirtæki farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á grunni SFF reglnanna og úrræðum fjármálafyrirtækja.
Nefndin segir nauðsynlegt að fjármálafyrirtækin leitist við að koma á jafnvægi milli virðis eigna og greiðslugetu fyrirtækja í skuldavanda annars vegar og fjárskuldbindinga þessara fyrirtækja hins vegar. Felur þetta í sér að skuldir geta ekki verið hærri en 100% af virði fyrirtækja. Úrræði fjármálafyrirtækjanna verða auk þess að gera ráð fyrir að fjárhagslega endurskipulögð fyrirtæki hafi ekki meiri skuldabyrði en þau geta staðið undir.
Þörf sé á að óháður aðili virðismeti fyrirtæki og nauðsynlegt að stjórnvöld og samtök atvinnurekenda beiti sér fyrir því að slíkur farvegur verði búin til.
Nauðsynlegt sé að taka saman upplýsingar um fjárhæðir og leggja mat á möguleika á greiðslu sjálfskuldarábyrgða í tengslum við fyrirtækjarekstur, m.a. til að meta hvort gagnlegt geti verið að stofna sjóð sem jafni kostnað við niðurfellingu sjálfskuldarábyrgða og þriðjamannsábyrgða milli fjármálafyrirtækja.
Í nefndinni sitja María Thejll forstöðumaður Lagastofnunar Háskóla
Íslands, formaður, Sigríður Ármannsdóttir löggiltur endurskoðandi,
eigandi APaL endurskoðunarskrifstofu og Dr. Þórólfur Matthíasson
prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands. Starfsmaður nefndarinnar er
Valgerður Rún Benediktsdóttir lögfræðingur efnahags- og
viðskiptaráðuneytisins.