Hreinsunarstarf er nú hafið á Austurvelli eftir mótmælin i kvöld en talið er að allt að 8000 manns hafi tekið þátt í þeim. Gríðarlegt rusl er á svæðinu, leifar af miklu báli og matarkyns skotfæri sem fleygt var í húsakynni Alþingis. Verið er að flytja á brott tunnurnar sem barðar voru framan við húsið.
Alls voru 33 rúður brotnar í Alþingishúsinu og sóðaskapurinn á svæðinu var tvöfalt verri en í óeirðunum í ársbyrjun 2009, að sögn þingvarðar. Bílar þingmanna voru grýttir þegar þeim var ekið upp úr bílakjallara Alþingis í kvöld. Dæmi voru um að veist hafi verið að alþingismönnum þegar þeir yfirgáfu þinghúsið.
Munaði um girðinguna
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, telur að aðgerðir lögreglu hafi tekist eins vel og framast var unnt. Miklu hefði munað um álgirðinguna sem reist var framan við Alþingishúsið. „Það var auðséð að þeir sem ætluðu sér að fara í okkur áttu óhægt um vik,“ sagði hann.