„Ég fór yfir afstöðu ríkisstjórnarinnar til þess að gera Ísland að norrænu velferðarsamfélagi og hvaða þættir skipti þar máli. Ég tel að við séum mjög langt frá þeim veruleika og að við eigum mjög langt í land hvað það varðar,“ segir Margrét Guðmundsdóttir, formaður FA, um erindi sitt um þjóðmál í dag.
Fyrirlestur Margrétar, sem er jafnframt forstjóri Icepharma, hét „Blessaði Guð Ísland?“ og er aðgengilegur hér fyrir neðan en upplýsingar um málþing Félags atvinnurekenda (FA) má nálgast hér.
„Atvinnuvegir sitja ekki við sama borð. Það er mismunun á milli atvinnugreina hvað stuðning varðar og annað slíkt. Pólitíkin er enn þá á því plani að það eru pólitískar stöðuveitingar og klíkusamfélag sem er enn þá í gildi. Viðskiptasiðferðið þarf að komast í betra lag en hefur verið.“
Ódýr málflutningur ríkisstjórnarinnar
- Dregurðu ríkisstjórnina til ábyrgðar?
„Mér finnst ódýrt af stjórninni að segja að hún vilji norrænt velferðarsamfélag en skilgreini síðan ekki hvað það er. Það er miklu meira en félagshyggjusamfélag. Það er líka samfélag þar sem hagsmunir atveganna eru hafðir að leiðarljósi; að hugað sé að samkeppnishæfni Íslands í hlutfalli við aðrar þjóðir.
Það þarf að hugsa út í það. Þá er tekið tillit til þess að það þurfi að mennta fólk í tæknigreinum, vísindagreinum og styðja við rannsóknarvinnu. Það felur í sér miklu meiri metnað fyrir uppbyggingu þjóðfélagsins í heild. Þetta er ekki aðeins spurning um að allir geti fengið bætur. Þetta er miklu víðtækara en það.“
Sauðfjárrækt hlíft en heilbrigðisþjónusta skorin niður
- Telurðu að ríkisstjórnin hafi svigrúm til að hrinda þessum metnaðarmálum í framkvæmd?
„Ég tel að hún hafi ákveðið svigrúm með tiltekna hluti. Ég tók sem dæmi hvernig greinum er mjög mismunað í niðurskurði ríkisstjórnarinnar. Þar tók ég sauðfjárbúskap annars vegar og heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni hins vegar, þar sem búvörusamningar gera ekki ráð fyrir neinum niðurskurði. Þar er hækkun á milli ára.
Á sama tíma og niðurskurður í heilbrigðisþjónustu út á landi er um 2 milljarðar er verið að tryggja sauðfjárrækt 4 milljarða. Spurningin er af hverju þessari atvinnugrein er haldið algerlega fyrir utan sparnað á meðan aðrir þurfa að skera niður alveg að beini? Er þetta það sem fólkið í landinu vill? Vill fólkið missa slíka þjónustu úr sinni heimabyggð eða vill það missa eitthvað annað?“ spyr Margrét.
Komist ekki upp með að gera ekki neitt
- Telurðu að þetta skýrist af því hver fer með embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um þessar mundir?
„Ég er ekki að reyna að slá keilur á kostnað annarra. Ég er að segja að sem ríkisstjórn verður hún að hefja sig upp yfir svona pot og horfa á heildina. Allir þurfa að leggjast á eitt. Sumir mega ekki komast upp með að gera ekki neitt.“
Aðspurð hvort ekki sé skynsamlegt að styðja sauðfjárrækt í ljósi mikillar eftirspurnar erlendis og hækkandi verðs á heimsmarkaði kveðst Margrét gagnrýnin á slík áform. „Það er það mikil gróðureyðing í landinu út af sauðfjárbeit. Persónulega tel ég að þetta sé alls ekki leið sem við eigum að fara til að efla íslenskt atvinnulíf.“