„Þetta er bara þverskurður af þjóðlífinu,“ segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, um mótmælin við Alþingishúsið í fyrrakvöld. Fleiri taka í sama streng, þarna hafi verið fólk úr öllum aldurshópum og af öllum stigum þjóðfélagsins. Langflestir hafi mætt í friðsamlegum tilgangi en lítill hópur mótmælenda unnið skemmdarverkin og verið með óeirðir.
Mótmælin fjölmennu á Austurvelli virðast vera sjálfsprottin. Engin öfl stýra þessum aðgerðum á bak við tjöldin að mati viðmælenda. Þau endurspegli mikla óánægju og reiði í öllu samfélaginu, ekki síst vegna yfirvofandi nauðungaruppboða, skorts á aðgerðum og mismununar við úrlausn á skuldavandanum.
Helgi Gunnlaugsson segir að það hafi verið undirliggjandi ólga í samfélaginu alveg frá bankahruninu og telur að orsök þess að hún brýst fram núna sé sú að fólki finnist að það sé í gangi mismunun í þjóðfélaginu, ,,það sé verið að hygla tilteknum aðilum á meðan aðrir þurfa að éta það sem úti frýs,“ segir Helgi. Upplifun fólks virðist vera sú að það séu tvær stéttir í landinu, fjármagnseigendur og aðrir í viðskiptalífinu sem standi nálægt stjórnvöldum og bönkunum njóti annarra og betri kjara en venjulegu fólki standi til boða.
Þarna birtist einfaldlega óheft reiði fólks. „En ég skil ekki að fólk skuli voga sér að fara með börn á svona mótmæli. Mér finnst það mikið ábyrgðarleysi.“
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, segir mótmælin nú líkjast fremur mótmælafundunum sem haldnir voru fyrstu vikurnar og mánuðina eftir bankahrunið, en búsáhaldabyltingunni svokölluðu í janúar 2009. Mótmælin hafi í upphafi fremur lýst mikilli reiði en að mótmælendur hafi haft einhver skýr markmið. ,,Síðan gerðist það með tímanum að mótmælin fengu tiltölulega skýrar kröfur sem voru um mannaskipti í ríkisstjórn, á þingi og hjá eftirlitsstofnunum.“ Þau hafi náð inn í annan stjórnarflokkinn, Samfylkinguna, sem hafi slitið stjórnarsamstarfinu við sjálfstæðismenn. Spurningin núna sé því sú hvort mótmælin nái með einhverjum hætti inn í stjórnarflokkana, hvort t.d. órólega deildin í Vinstri grænum hafi verið stödd á Austurvelli í fyrrakvöld. Gunnar Helgi á þó ekki von á að ríkisstjórnin falli einmitt núna, sérstaklega vegna þeirrar miklu óvissu sem uppi er í stjórnmálalífinu eftir landsdómsákæruna. En mjög erfitt sé að reyna að segja hvernig mál muni þróast á næstunni.
Réttlætiskennd er mjög rík í Íslendingum, að sögn Helga Gunnlaugssonar. „Það svíður mjög djúpt í Íslendingum ef þeir hafa á tilfinningunni að stjórnvöld séu að gera mannamun. Ef fregnir af því tagi halda áfram að berast og menn sjá fleiri dæmi um slíkt, þá geta þessi mótmæli magnast og mótmælendum fjölgað. Þetta eru skýr skilaboð til stjórnvalda um að halda vöku sinni og gæta vel að almennum leikreglum,“ segir Helgi. Hörður telur víst að mótmælunum sé ekki lokið. „Það gengur ekki að láta almenning í landinu blæða á meðan við sjáum afskriftirnar eiga sér stað hjá auðmönnum. Fólk bíður eftir einhverju réttlæti. Fólki er misboðið og ekki að ástæðulausu.“