Frumvarp flutt í tíunda sinn

Fimmtín þingmenn standa að frumvarpi um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum.
Fimmtín þingmenn standa að frumvarpi um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum. Kristinn Ingvarsson

Fimmtán þingmenn hafa lagt fram frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Er þetta í tíunda sinn sem frumvarpið er flutt en það hefur aldrei náð fram að ganga.

Árni Þór Sigurðsson, VG, flytur frumvarpið og meðflutningsmenn eru þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum.

Lögin eiga að gera Ísland að friðlýstu svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorkuvopn. Umferð kjarnorkuknúinna farartækja er bönnuð á hinu friðlýsta svæði og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs.

Markmiðið er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust, afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, draga úr hættunni á kjarnorkuóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.

Í greinargerð er meðal annars vísað til ákvæða stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar um að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og íslensk stjórnvöld muni beita sér fyrir kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi.

Fyrstu tillögur á áttunda áratugnum

Fyrstu tillögur um að lýsa Íslands kjarnorkuvopnalaust svæði voru bornar fram af Svövu Jakobsdóttur og Magnúsi Torfi Ólafssyni, þingmönnum Alþýðubandalagsins, um miðjan áttunda áratug síðustu aldar.

Steingrímur J. Sigfússon, núverandi fjármálaráðherra, lagði fyrst fram frumvarp á Alþingi árið 1987 um að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum. Steingrímur lagði slík frumvörp síðan fram nokkrum sinnum á næstu tveimur áratugum en á síðasta ári, eftir að hann tók við ráðherraembætti flutti Árni Þór slíkt frumvarp. 

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram  að í  gegnum tíðina hafi frumvarpið notið stuðnings þingmanna allra hinna rótgrónu flokka nema Sjálfstæðisflokksins og ánægjulegt sé, að í gegnum tíðina hafi náðst góð samstaða um frumvarpið þvert á flokkslínur.  Sé það von flutningsmanna nú að þessi samstaða haldist og eflist frekar en hitt þannig að frumvarpið hljóti nú fulla afgreiðslu á Alþingi.

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert