Fundað þar til eitthvað liggur á borðinu

Jóhanna SIgurðardóttir, forsætisráðherra, á tröppum stjórnarráðhússins í hádeginu.
Jóhanna SIgurðardóttir, forsætisráðherra, á tröppum stjórnarráðhússins í hádeginu. mbl.is/ak

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði eftir fund með Hagsmunasamtökum heimilanna að frekari fundahöld séu fyrirhuguð. Meðal annars mun hópur fimm ráðherra funda daglega þar til eitthvað liggi á borðinu. Hún sagði fundinn með hagsmunasamtökunum mjög gagnlegan.

Jóhanna sagði að vítt og breitt hefði verið farið yfir stöðuna en mikilvægt væri að funda aftur og þá með lífeyrissjóðum og bönkunum. Hún vonast til að sá fundur fari fram í næstu viku. Einnig hafi verið ákveðið að funda með þeim fjórum nefndum Alþingis sem fjalli á einn eða annan hátt um vandamál heimilanna í landinu.

Hvað fundinn varðar sagði Jóhanna að forsvarsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna hafi farið yfir sínar hugmyndir. „Ég vil ekki útiloka neitt, en það er ljóst að það þarf þá að fara í samninga við banka og lífeyrissjóði ef eitthvað slíkt á að koma til greina líkt og almenn niðurfærsla. Það fórum við yfir og þess vegna viljum hafa þennan fund með bönkum og lífeyrissjóðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert