Vegna yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar um áhugaleysi stjórnarandstöðu um samstarf vilja þingmenn Hreyfingarinnar koma því á framfæri að þeir eru reiðubúnir til samstarfs um raunverulegar lausnir fyrir fólkið í landinu.
„Þingmenn Hreyfingarinnar hafa fullan vilja til samstarfs um raunverulegar lausnir fyrir fólkið í landinu. Að verja hagsmuni fólksins er okkar megin verkefni.
Forsætisráðherra boðaði talsmenn allra stjórnmálasamtaka sem eiga fulltrúa á Alþingi á sinn fund í gær. Á fundinum lagði Þór Saari það til að ráðist yrði í almenna leiðréttingu lána, að verðtrygging yrði afnumin, að lyklafrumvarpið yrði samþykkt, að uppboð sem fram hafa farið á grundvelli ólögmætra krafna verði látin ganga til baka og að ekki yrði hægt að halda kröfum endalaust við eftir gjaldþrot. Þá lagði hann til að nauðungarsölum yrði frestað.
Að endingu lagði Þór til að þessi áform yrðu tímasett og þeim hrint í framkvæmd. Í framhaldinu yrðu kosningar tímasettar. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar sáu ekki ástæðu til að nálgast málin út frá þessu sjónarhorni," segir í tilkynningu.