Kallað eftir nýjum upplýsingum

Mótmælin við Alþingishúsið hafa hreyft við þingmönnum.
Mótmælin við Alþingishúsið hafa hreyft við þingmönnum. mbl.is/Júlíus

Fulltrúar fjármálafyrirtækja munu gefa félags- og tryggingamálanefnd Alþingis yfirlit yfir stöðu mála í skuldauppgjörum viðskiptavina í lok næstu viku. Var það ákveðið að fundi með nefndinni í morgun.

Fjórtán fulltrúar viðskiptabankanna og annarra fjármálafyrirtækja og formaður eftirlitsnefndar aðgerða í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja mættu á fund félags- og tryggingamálanefndar í morgun að ósk formanns nefndarinnar, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur þingmanns Samfylkingarinnar. 

„Við tökum öll nærri okkur þá reiði og angist sem er að brjótast fram í samfélaginu. Það er mikilvægt að við sem höfum völdin, ekki síður fjármálafyrirtækin en stjórnvöld, sýnum ábyrgð. Það þurfa allir að leggjast á árarnar til að koma okkur út úr þessu ástandi,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Hún segir að fundurinn hafi verið liður í nauðsynlegu aðhaldi stjórnvalda með framkvæmd þeirra úrræða sem Alþingi hafi samþykkt að beitt sé til að leysa skuldavanda heimila og fyrirtækja.

Vantar upplýsingar um stöðuna

Pétur Blöndal, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, segir að tilfinnanlega skorti upplýsingar um raunverulega stöðu mála. Greina þurfi hversu stór hluti fjölskyldna sé í leiguhúsnæði, í skuldlausu eigin húsnæði eða með litlar skuldir, hversu stór hluti sé í slæmri stöðu og loks í mjög slæmri eða vonlausri stöðu.

„Ég hef beðið um að farið verði í þannig skoðun,“ segir Pétur og tekur fram að því hafi verið vel tekið. Ekki liggi fyrir hvernig best sé að standa að henni en þannig þurfi að standa að verki að fólk geti treyst niðurstöðunni.

Hann segist til dæmis ekki hafa séð rannsóknir sem styðji þá fullyrðingu að 75% fjölskyldna í landinu verði eignalaus í lok næsta árs, eins og fram kom í grein á vef VR í dag og sagt hefur verið frá á mbl.is.

„Ef slíkar fullyrðingar eru ekki réttar, eru þær hættulegar því þær framkalla reiði,“ segir Pétur.

Pétur telur eftir fundinn að bankarnir séu að gera meira en fram hefur komið til að leysa þann vanda sem við er að etja og vaxandi skilningur sé á þeim vettvangi að það sé allra tap að keyra fólk í gjaldþrot. Hann vekur jafnframt athygli á upplýsingum sem fram hafa komið um að aðeins 15% uppboða sé að kröfu bankanna en helmingur vegna opinberra aðila og síðasti hlutinn vegna lífeyrissjóða, tryggingarfélaga, verslana og annarra aðila. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert