Á síðasta þingi var mælt fyrir frumvarpi til laga um fjölmiðla. Var frumvarpið afgreitt úr nefnd, en ekki náðist að greiða um það atkvæði á Alþingi. Mælt verður með frumvarpinu á ný í byrjun nýs haustþings.
Segir í nýju vefriti menntamálaráðuneytisins að frumvarpið sé meðal þess sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Meðal annars hafi þótt ástæða til að huga að stöðu fjölmiðla sem miðla efni á netinu, svo sem netútgáfu dagblaða og tímarita og annarra sambærilegra netmiðla.
„Ástæðan er sú að lagaleg staða þeirra hafi í besta falli verið afar óljós í þeirri hröðu þróun fjölmiðla og tækni tengdri þeim sem átt hefur sér stað á liðnum árum," segir í vefriti ráðuneytisins.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er þáttur fjölmiðla í aðdraganda hrunsins. Í siðfræðihluta skýrslunnar segir að fjölmiðlar leiki „lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag.“
„Er það niðurstaða skýrsluhöfunda að íslenskir fjölmiðlar
hafi ekki staðið nægjanlega vel undir þessu hlutverki. Brugðist er við
þessari gagnrýni í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og lagt til að
komið sé á faglegu eftirliti með fjölmiðlum sem hafi það að markmiði að
þeir tryggi af ábyrgð hlutverk sitt í lýðræðisríki og verndi
almannahagsmuni, en slíkt eftirlit að finna í öllum vestrænum ríkjum
vegna sérstöðu fjölmiðla, nema á Íslandi," segir ennfremur í vefritinu.