Mikið álag hjá prestum

Jón Helgi er prestur í Langholtskirkju.
Jón Helgi er prestur í Langholtskirkju. Árni Sæberg

Fjöldi fólks leitar nú til presta vegna erfiðra aðstæðna í þjóðfélaginu, að sögn Jóns Helga Þórarinsson, sóknarprests í Langholtskirkju. Hann hvetur almenning til að vinna saman að bættum hag þeirra sem eiga um sárt að binda.

Jón Helgi segir mikið annríki í Langholtskirkju.

„Í þessu hverfi sem er rótgróið og frekar stöðugt eru samt fleiri sem hafa komið hingað sem eiga í meiri vandræðum að framfleyta sér en verið hefur. Fólk er ljóslega í erfiðari stöðu og er að biðja um hjálp. Þetta er reyndar ekki stór hópur hér í hverfinu en svo kemur fólk víðar að til okkar,“ segir Jón Helgi og bætir því við að margir spyrji um fjárhagslega aðstoð.

Fólk er að missa þolinmæðina

- Hvernig líður fólkinu?

„Fólk er að verða mjög þreytt. Það herðir alltaf að hjá þeim sem hafa átt í fjárhagsþrengingum, jafnvel í á annað ár eða lengur. Fólk er að verða búið fyrr með það sem það hefur til að lifa af mánuðinn. Þetta fólk er að verða mjög þreytt á þessum erfiðleikum því það hefur ekkert batnað nema síður sé í samfélaginu.“

Jón Helgi segir mikilvægt að huga að sálræna þættinum.

„Við reynum að hvetja fólk og hjálpa því áfram. Við spyrjum um stuðningsnetið í kringum fólkið og hvort það eigi einhverja að sem geti liðsinnt því. Oft er þetta fólk með börn sem þarf og verður að styðja.

Það felst í þessu sálgæsla og hvatning. Eðlilega finnst mjög mörgum erfitt að ræða um þessi mál í sínum hópi, í sinni fjölskyldu. Ég hvet fólk hins vegar til þess.“

Erfiður vetur fram undan

- Upplifirðu vonleysi?

„Ég veit ekki hvort ég á að segja það en það er langleiðina í það hjá ýmsum. Það má segja það. Það fólk sem kemur hingað er að leita sér aðstoðar og er með von í brjósti.

Ég býst við að það séu ýmsir sem hafi það ekki í sér að koma og eru sennilega enn verr staddir. Það fólk sem leitar hingað hefur enn svolítinn kraft með sér og von og vill standa sig og vinna úr þessu.

Við vitum að þetta verður erfiður vetur og ég hef sagt það lengi að þetta yrði líklega erfiðasti veturinn í samfélaginu. Ég held að það ríði mikið á að menn vinni saman að því að gefa fólki von, ekki síst unga fólkinu með börn sem maður hefur langmestar áhyggjur af.

Og börnunum sjálfum sem alast upp í umhverfi sem er mjög erfitt. Ég hef áhyggjur af þeim. Langvarandi umræða um að hlutirnir muni ekki batna í náinni framtíð getur verið mjög erfið fyrir unga fólkið, ekki síst á unglingsárunum sem geta verið mjög erfið.

Það skiptir miklu máli að þeir sem eiga um sárt að binda fái það á tilfinninguna fljótt að það sé í augsýn einhver lausn, að því verði hjálpað og það stutt áfram. Ég held að það skipti alveg gríðarlegu máli.

Það er líka mikilvægt að við stöndum öll saman og hlúum að þeim sem eru í kringum okkur, að við látum okkur hvert annað varða. Við þurfum líka að vinna með reiðina í samfélaginu. Heilög reiði er góð, sú sem kallar eftir réttlæti, en hún má heldur ekki verða þannig að hún skemmi út frá sér. Hún getur gert það ef hún fær ekki eðlilega útrás,“ segir Jón Helgi.

Séra Jón Helgi Þórarinsson er sóknarprestur í Langholtsprestakalli.
Séra Jón Helgi Þórarinsson er sóknarprestur í Langholtsprestakalli. Eyþór Árnason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka