Mótmælendum á Austurvelli hefur fjölgað ört á síðasta klukkutímanum. Þeir voru á milli 50 og 100 á milli fimm og sex en eru nú á milli 200 og 300, að sögn heimildarmanns blaðsins. Lögreglan er í viðbragðsstöðu en nokkrir hafa verið að grýta eggjum. Haldið er upp á tveggja ára afmæli hrunsins.
Mótmælendur berja nú um 40 tunnur og er ærandi hávaði á Austurvelli af þeim sökum.
Samkvæmt sjónarvotti sem Morgunblaðið ræddi við var einn mótmælenda handtekinn rétt í þessu við dyr Alþingishússins. Ekki lá fyrir hvað tilefnið var.
Logn er á Austurvelli og 10 stiga hiti og er yfirbragðið afslappaðra en í mótmælunum á mánudag.