Íbúðalánasjóður hefur að óbreyttu ekkert svigrúm til að afskrifa hluta af húsnæðislánum með flötum niðurskurði með lækkun vísitölu, að sögn Ástu Bragadóttur, starfandi framkvæmdastjóra sjóðsins.
Ásta bendir á að fyrir Alþingi liggi frumvarp um kaupleigu sem taka eigi fyrir á haustþingi, valkostur sem geti gagnast mörgum einstaklingum á markaðnum í dag.
Lífeyrissjóðirnir myndu tapa
Að sögn Ástu keyptu lífeyrissjóðirnir skuldabréf af sjóðnum sem noti féð til útlána viðskiptavina sinna.
Hún minnir á að afborganir af lánum séu reiknaðar út frá núverandi forsendum sem byggist á vaxtamun lána og útlána, einu tekjuuppsprettu Íbúðalánasjóðs.
Því þýði handvirk niðurfærsla á vísitölu neysluverðs að lífeyrissjóðirnir þurfi að niðurfæra verðmæti skuldabréfanna sem þeir keyptu af Íbúðalánasjóði. Það komi að óbreyttu niður á lífeyrisgreiðslum.
Þá bendir Ásta á að ef Íbúðalánasjóður taki ákvörðun um að lækka leigu í leiguíbúðum sínum niður fyrir markaðsverð gæti það grafið undan rekstrargrundvelli leigufélaga. Hún tekur jafnframt fram að sjóðurinn leigi út hlutfallslega fáar íbúðir á leigumarkaðnum.
Ríkið þyrfti að leggja til fé
Ásta segir aðspurð að fulltrúar ríkisins hafi ekki ljáð máls á hugmyndum um að sjóðurinn afskrifi hluta af húsnæðislánum með flötum niðurskurði með lækkun vísitölu.
Ef frá sé talin kostnaður fyrir lífeyrissjóði myndi slíkt skref þýða að ríkið yrði að leggja Íbúðalánasjóði til fé. Sá reikningur yrði því að óbreyttu að endingu sendur til skattborgara.
Ásta kveðst hafa skilning á bágri stöðu margra einstaklinga og fjölskyldna og tekur aðspurð fram að starfsfólk sjóðsins upplifi beint og milliliðalaus reiði fólks sem á í miklum erfiðleikum.
Hjá því sé hins vegar ekki komist að taka með í reikninginn þann kostnað og þau hliðaráhrif sem inngrip af þessum toga myndu kosta sjóðinn.
Svigrúm Íbúðalánasjóðs til að stíga slík skref sé ekkert á þessum tímapunkti og því ljóst að ríkið yrði að leggja sjóðnum til fé.
Staðan laus til umsóknar
Ásta svarar því að lokum til að hún hafi ekki tekið ákvörðun um að sækja um stöðu framkvæmdastjóra sjóðsins en hún var fyrst auglýst til umsóknar í apríl. Hún tók við núverandi stöðu hjá sjóðnum af Guðmundi Bjarnasyni, fráfarandi framkvæmdastjóra, í júlí en umsóknarfrestur rennur út 17. október næstkomandi.