Steingrímur var andvígur sparnaðarskatti

Steingrímur J. Sigfússon ávarpar félaga sína í VG fyrr á …
Steingrímur J. Sigfússon ávarpar félaga sína í VG fyrr á kjörtímabilinu. mbl.is/Skapti

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra taldi „fráleitt að skattleggja smásparnað nákvæmlega eins og svimandi háar fjármagnstekjur auðmanna“ er hann velti fyrir sér þróun þjóðmála í bók sinni Við öll: íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum fyrir fjórum árum. Hann skipti um skoðun sem ráðherra.

Tekið skal fram að slík umskipti hafa orðið í íslenskum efnahagsmálum að ef til vill er ósanngjarnt að rifja þetta upp en hjá hinu verður ekki litið að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur hækkað fjármagnstekjuskatt á einstaklinga, óháð efnahag.

Af braut róttækrar jafnaðarstefnu?

Steingrímur gerði grein fyrir þessari skoðun sinni í undirkaflanum Á braut róttækrar jafnaðarstefnu í fyrsta kafla bókarinnar Framtíð velferðarsamfélags á Íslandi. Þar segir á blaðsíðu 37:

„Einnig er sjálfsagt að breyta álagningu fjármagnstekjuskatts þannig að fyrst komi frítekjumark gagnvart hóflegum almennum sparnaði en síðan hærri skattprósenta en nú er á tekjur þar fyrir ofan, t.d. 18%,“ skrifaði Steingrímur en fjármagnstekjuskattur hefur sem kunnugt er verið hækkaður úr 10% í 18% í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Hvar liggja hóflegu mörkin?

Steingrímur útskýrir ekki hver mörk hóflegs, almenns sparnaðar eru en hann var ekki í vafa um að of há skattprósenta á sparnað lágtekjufólks væri ósanngjörn. Hann skrifaði þannig á sömu síðu:

„Í reynd er fráleitt að skattleggja smásparnað nákvæmlega eins og svimandi háar fjármagnstekjur auðmanna. Skattkerfið getur verið öflugt jöfnunartæki og á að nota sem slíkt. Það er algjörlega óviðunandi að beita því þannig að það auki bilið milli eignamanna og eignalausra, milli hátekjumanna og láglaunafólks, eins og gert hefur verið í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.“

Athugasemd frá aðstoðarmanni ráðherra

Huginn Freyr Þorsteinsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, hefur sent blaðinu eftirfarandi athugasemd vegna þessarar fréttar: 

„Fréttin er í grundvallaratriðum röng. Það er rétt að Steingrímur var og hefur verið andvígur skattlagninu smásparnaðs. Hins vegar er það „rangt að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur hækkað fjármagnstekjuskatt á einstaklinga, óháð efnahag“.

Ríkisstjórnin, í samræmi við viðhorf fjármálaráðherra í þessum efnum, hefur nefnilega nákvæmlega gert þetta. Fjármagnstekjuskattur hefur verið hækkaður í 18% og til staðar er 100 þúsund króna frítekjumark per einstakling, semsé smásparnaður er undaskilinn. Þar af leiðandi hefur og þvert á það sem fréttin á að sanna Steingrímur staðið við orð sín. Flestir þeir sem eiga slíkan sparnað eða lítillega fyrir ofan sleppa því við að greiða skatt að mestu eða öllu leyti. Það er yfirleitt fólk með lægri tekjur sem sleppur því.

Kannski væri fróðlegra fyrir Morgunblaðið mitt í einni erfiðustu fjárlagagerð sem farið hefur fram að taka saman þá upphæð sem tapaðist þegar Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að lækka fjármagnstekjuskatt á útrásarárunum. Hvað væri ríkið búið að ná inn miklum tekjum ef fjármagnstekjuskattur væri 18% og 100 þúsund króna frítekjumark? Það fé væri óneitanlega notalegt að hafa við núverandi aðstæður og hefði verið mögulegt ef menn hefðu hlýtt kalli ráðherrans þegar hann var í stjórnarandstöðu og skrifaði bókina Við Öll.“

Við öll er lipurlega skrifað og alþýðlegt rit um þau …
Við öll er lipurlega skrifað og alþýðlegt rit um þau mál sem Steingrímur taldi mest knýjandi fyrr á áratugnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert