Tími þagnarinnar liðinn

Dómkirkjan í Reykjavík.
Dómkirkjan í Reykjavík. mbl.is/Ómar

„Prestar tjá sig í predikunum um allt land, í fjölmiðlum og á bloggsíðum. En ekkert heyrist frá Þjóðkirkjunni sem stofnun eða æðstu stjórn hennar, hvorki frá Kirkjuráði, próföstum eða biskupum,“ skrifar Þórhallur Heimisson prestur sem telur að tími þagnarinnar sé liðinn.

Þórhallur, sem fór með fundarstjórn á nýlegum fundi um fátækt í Reykjavík, telur að afstaða Þjóðkirkjunnar þurfi að vera ljós enda sé ekki hægt að sitja þegjandi og hljóðalaust undir þeim hræringum sem nú skekja þjóðfélagið.

Með skrifum sínum bætist Þórhallur í hóp fleiri presta sem hafa tjáð sig um erfiða stöðu heimila en séra Birgir Ásgeirsson lét þau orð falla fyrir mótmælin síðasta mánudag að ríkisstjórnin ætti um tvennt að velja.

Hart sótt að fjölskyldum

Þórhallur skrifar í gagnrýni sinni á þögn Þjóðkirkjunnar að nú sé „hart sótt að fjölskyldum landsins og þeim sem minna mega sín“.

„Þúsundir fjölskyldna eru á uppboði og sjá fram á að heimilið splundrist, tugþúsundir óttast um framtíð sína. Biðraðir eftir mat lengjast dag frá degi hjá neyðarstofnunum.

Samtímis staðfestir ríkistjórnin með bréfi til AGS að ekki verði frekar gert fyrir fjölskyldur landsins. Nýtt fjárlagafrumvarp boðar í raun afnám velferðarkerfisins. Þar er ráðist á sjúklinga, fæðingardeildir, fötluð börn á Suðurnesjum.

Og þetta á meðan fréttir berast af tugmilljarða gróða banka og uppgjöri skulda hjá hinum ríku og voldugu. Óréttlætinu virðast lítil takmörk sett.

En sama hversu órétturinn magnast og árásirnar gegn fjölskyldunum og lítilmagnanum - þá ríkir þögn um þessa atburði hjá Þjóðkirkjunni.

Ekki misskilja mig.  Prestar tjá sig í predikunum um allt land, í fjölmiðlum og á bloggsíðum. Til dæmis má nefna frábær blogg séra Svavars sóknarprests á Akureyri hér á Moggablogginu um ástandið, ríkisstjórnina og óréttinn í samfélaginu.

En ekkert heyrist frá Þjóðkirkjunni sem stofnun eða æðstu stjórn hennar- hvorki frá Kirkjuráði, próföstum eða biskupum. Hér með óska ég eftir að þessi þögn verði rofin. Að afstaða kirkjunnar komi í ljós.

Hjá Predikaranum í Gamla testamentinu segir: „Að þegja hefir sinn tíma og að tala hefir sinn tíma (Pred.3;7). Nú er tími þagnarinnar liðinn,“ skrifar Þórhallur. 

Séra Þórhallur Heimisson.
Séra Þórhallur Heimisson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka