85% niðurskurður á sjúkrasviði

Borgarafundurinn á Húsavík í kvöld.
Borgarafundurinn á Húsavík í kvöld. Hafþór Hreiðarsson

„Forsendurnar fyrir því að það er dregið saman um 85% á sjúkrasviði eru að það er verið að bera okkur saman við Landspítala og kragasjúkrahús,“ segir Unnsteinn Ingi Júlíusson læknir um áhrif niðurskurðarins á heilbrigðisþjónustu í Norðurþingi. Unnsteinn ræddi stöðuna á hitafundi á Húsavík í kvöld. 

„Þéttleikinn á þjónustu fyrir sunnan, hjúkrunarþjónusta og heimaaðhlynning er af allt öðrum toga en hér. Það er skorið niður hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga um 374 milljónir króna í heildina. Það er 40% miðað við fyrra ár af heildarframlögum til stofnunarinnar. Í ljósi þess að heilbrigðisráðuneytið ætlar að leggja áherslu á að standa vörð um grunnþætti eins og heilsugæslu, hjúkrunarrými og sérhæfða sjúkrahúsþjónustu að þá verður fjárveiting til sjúkrasviðs stofnunarinnar skorin niður um 85%.“

Unnsteinn fór yfir lögbundnar skyldur heilbrigðisþjónustunnar í Norðurþingi og hvernig fyrirhugaður niðurskurður muni reynast „aðför að byggðum landsins“ þegar heilbrigðisþjónusta er annars vegar. 

Af heildarniðurskurði til heilbrigðisstofna landsins eiga stofnanir á landsbyggðinni að standa undir 84%.“

Forsendurnar rangar

Hann segir útreikninga við niðurskurðinn hæpna. 

„Það liggur ekki fyrir nein kostnaðargreining eða úttekt á því hvernig á að bera saman legurými á stórum og litlum spítölum.

Vegalengdir hér eru miklar. Þetta er stórt og mikið hérað. Það eru 220 km frá Þórshöfn í Ljósavatnsskarð. Þórshafnarbúinn þarf að fara 250 km til að fara á sjúkrahús á Akureyri, sem jafngildir ferð frá Reykjavík til Kirkjubæjarklausturs.

Af innlögnum á Landspítala eru 65% á lyflækningadeildir, en gert er ráð fyrir að 100% innlagna hér séu til lyflækninga, og þörf fyrir sjúkrarými metin út frá því. Þetta er rangt, því hér sinnum við auk almennra lyflækninga endurhæfingu eftir slys og aðgerðir, móttöku slasaðra og bráðveikra og ýmsu fleiru, eins og lögin bjóða okkur.

Við sinnum því hér sem okkur er lögboðið að sinna, það er hjúkrun, móttöku slasaðra og bráðaveikra, endurhæfingu aldraðra og fólks eftir aðgerðir og slys og svo sinnum við að sjálfsögðu almennri lyflæknisþjónustu.“

Sjúkradeildin mun leggjast af

En hvað segir Unnsteinn Ingi um mannlega þáttinn í niðurskurðinum?

„Varðandi mannlega og samfélagslega þáttinn, þá þýðir niðurskurðurinn að sjúkradeildin mun leggjast af. Við getum ekki sinnt meðferð algengustu sjúkdóma sem krefjast sjúkrahúsinnlagnar, ekki heldur endurhæfingu eftir aðgerðir, þá lendir t.d. bæklunardeildin á Akureyri í vandræðum með okkar fólk eftir aðgerðir, því endurhæfingarpláss eru af skornum skammti.

Hvíldar- og endurhæfingarinnlagnir fyrir aldraða og langveika leggjast af, aukinn þungi færist á aðstandendur. Kostnaður vegna ferða til Akureyrar eykst og leggst bæði á sjúklinga og ríkið. Tugir missa atvinnuna og líklegt er að stór hluti flytjist brott og taki með sér maka og börn.

Skattgreiðendum fækkar hér, sveitarfélagið þarf að segja upp fólki, fyrirtæki á svæðinu verða af viðskiptum og skólarnir eiga undir högg að sækja. Kostnaðurinn við meðferð okkar íbúa leggst á önnur sjúkrahús, sem eru nú þegar með næg verkefni. Þetta er aðför að landsbyggðinni og þvert á fyrri ummæli og loforð fyrir kosningar. En meðbyr þingmanna sem  mættu á fundinn var sterkur og augljós,“ segir Unnsteinn Ingi.

Frá fundinum.
Frá fundinum. Hafþór Hreiðarsson
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, tók til máls á fundinum.
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, tók til máls á fundinum. Hafþór Hreiðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka