Ætlaði ekki að vega að starfsheiðri manna

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins mbl.is/Ómar

„Þetta var mjög fínn og uppfræðandi fundur,“ segir Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem fundaði með Bandalagi íslenskra listamanna í hádeginu. Málið varðar ummæli sem Ásbjörn lét falla á Alþingi í fyrradag um listamenn. Hann hefur beðist afsökunar.

„Tilefni fundarins var þetta sem ég lét falla á þingi, sem margir hafa skilið þannig að ég hafi verið að vega að starfsheiðri og atvinnu manna. Sem var alls ekki ætlunin. Ég bað nú afsökunar á því á fundinum,“ segir Ásbjörn í samtali við mbl.is.

Hann segir málið vera afgreitt af sinni hálfu. „Ég labbaði sáttur út eftir þennan fund. Við áttum náttúrulega í orðaskiptum og allt í góðu með það. Þetta var fyrst og fremst fræðandi og uppbyggjandi fyrir mig.“

Varðandi sjálf ummælin, sem hann lét falla á Alþingi, segir hann að tilgangurinn hafi verið að ræða og gagnrýna forgangsröðun stjórnvalda og segist Ásbjörn hafa tínt til þá útgjaldaliði sem séu hækkaðir á milli ára í fjárlagafrumvarpinu. 

Ummælin vöktu víða hörð viðbrögð. Ásbjörn segist bæði hafa fengið góð og slæm viðbrögð. „Ég er búinn að fá mikið af póstum frá reiðum listamönnum, misgóðum. Sumir eru uppbyggjandi en aðrir eru daprir,“ segir Ásbjörn að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert