Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag ríkisstjórnina fá „algjöra falleinkunn“. Hún hafi ekki náð utan um vandann og ekki komið með almennilegar lausnir. Ekki síst er vandinn bundinn við ómögulega efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.
Bjarni vísaði í að aðeins 128 einstaklingar hafi fengið sérstæka skuldaaðlögun og spurði forsætisráðherra hvers konar árangur það teljist.
Hann sagði að í fyrsta lagi þurfi að taka skuldavanda heimilanna alvarlega. En vilji ríkisstjórnin efna til samráðs þurfi það að taka til fleiri þátta, s.s. hvernig unnið verður að atvinnuuppbyggingu auk þess sem ný trúverðug efnahagsstefna fyrir landið verði að koma til. Þannig verði hægt að skapa ný störf og loka fjárlagagatinu. Þannig komist fólk út á vinnumarkaðinn og geti séð fyrir sér og sínum. Nýjar fjárfestingar þurfi til, lægri vexti og afnám gjaldeyrishafta.
Þá spurði Bjarni hvar efndir væru á mannaflsfrekum framkvæmdum í samráði við lífeyrissjóðina.