Borgarafundir á fjórum stöðum

Búist er við fjölmenni á borgarafundi um niðurskurð heilbrigðisþjónustu. Myndin …
Búist er við fjölmenni á borgarafundi um niðurskurð heilbrigðisþjónustu. Myndin var tekin á borgarafundi um atvinnumál á Húsavík. Hafþór Hreiðarsson

Boðað hef­ur verið til borg­ar­a­funda til að mót­mæla niður­skurði á sjúkra­hús­um á nokkr­um stöðum á lands­byggðinni. Fundað verður á Húsa­vík, í Reykja­nes­bæ og Ísaf­irði í dag og á morg­un í Vest­manna­eyj­um.

Sveit­ar­fé­lög­in í Þing­eyj­ar­sýsl­um boða til borg­ar­a­fund­ar um niður­skurð á fjár­veit­ing­um til Heil­brigðis­stofn­un­ar Þing­ey­inga. Fund­ur­inn verður á Foss­hót­eli Húsa­vík klukk­an 17 í dag. 

Heil­brigðisráðherra, fjár­málaráðherra og þing­mönn­um kjör­dæm­is­ins hef­ur verið boðið til fund­ar­ins.

Kefla­vík kl. 20

Þögul mót­mæli verða í skrúðgarðinum, við sjúkra­húsið í Reykja­nes­bæ í dag. 

Styrkt­ar­fé­lag Heil­brigðis­stofn­un­ar Suður­nesja, Fé­lag eldri borg­ara á Suður­nesj­um og Starfs­manna­fé­lag Heil­brigðis­stofn­un­ar Suður­nesja boða til fund­ar­ins sem verður í kvöld, klukk­an 20.

Efnt er til fund­ar­ins til að mót­mæla til­lög­um um niður­skurð á fram­lög­um rík­is­ins til rekstr­ar Heil­brigðis­stofn­un­ar Suður­nesja á næsta ári. „Þetta skap­ar óör­yggi og óvissu fyr­ir sjúk­linga og fæðandi kon­ur,“ seg­ir meðal ann­ars í fund­ar­boði.

Ísa­fjörður kl. 21

Borg­ar­a­fund­ur vegna til­lagna rík­is­stjórn­ar­inn­ar um 40% niður­skurð á sjúkra­húsþjón­ustu hjá Heil­brigðis­stofn­un Vest­fjarða verður einnig í kvöld. Fund­ur­inn verður í íþrótta­hús­inu á Torf­nesi og hefst klukk­an 21, að lokn­um fyrsta leik vetr­ar­ins hjá KFÍ.

Í til­lögu að álykt­un sem lögð verður fyr­ir fund­inn er stór­felld­um niður­skurði á heil­brigðisþjón­ustu á Vest­fjörðum hafnað al­farið og þess kraf­ist að fallið verði frá boðuðum niður­skurði á sjúkra­hússviði Heil­brigðis­stofn­un­ar Vest­fjarða. Tryggt verði að Vest­f­irðing­ar búi við sam­bæri­legt ör­yggi í heil­brigðismál­um og aðrir lands­menn.

Sveit­ar­fé­lög­in á norðan­verðum Vest­fjörðum boða til fund­ar­ins.

Vest­manna­eyj­ar á morg­un

Áhuga­fólk um vel­ferð Vest­manna­eyja efn­ir til sam­stöðufund­ar á Stakkó á morg­un, föstu­dag, klukk­an 16.30. Í lok fund­ar er ætl­un­in að mynda hring um sjúkra­húsið.

Mót­mælt er aðgerðarleysi rík­is­stjórn­ar og til­lög­um um niður­skurð rík­is­ins á fjár­fram­lög­um til rekstr­ar Heil­brigðis­stofn­un­ar Vest­manna­eyja. Þær feli í sér að heil­brigðisþjón­usta í nú­ver­andi mynd verði lögð niður með skert­um lífs­kjör­um og brostn­um for­send­um bú­setu.

Þá er mót­mælt þeirri aðför sem stýrt er gegn Vest­manna­eyj­um með árás­um á at­vinnu­lífið og enda­laus­um niður­skurði á þjón­ustu, seg­ir í til­kynn­ingu um fund­inn.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka