Brot af tapi heimilanna

Samtökin áætla að aðgerðir til handa skuldsettum heimilum myndu kosta …
Samtökin áætla að aðgerðir til handa skuldsettum heimilum myndu kosta um 200 milljarða. mbl.is/Golli

„Heildartjón heimilanna er nú orðið 1.000 milljarðar króna. Hér var grímulaus aðför að heimilum og beinlínis lögbrot framin með lánagjörningum,“ segir Friðrik Ó. Friðriksson, formaður stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna, um þá niðurstöðu að aðstoð við skuldsett heimili kosti um 200 milljarða.

„Við erum að horfa á þá stöðu að stjórnvöld eru beinlínis að leita leiða framhjá því að taka á því réttlætismáli. Með því að gera það ekki erum við að grafa undan atvinnulífinu. Það missir stöðugt meira blóð. Því minni velta sem verður því færri fyrirtæki halda velli. Við það fækkar atvinnutækifærum, atvinnulausum fjölgar og tekjur heimilanna minnka. Fleiri lenda í skuldavanda og eignasöfn hrynja í verði. Vítahringurinn er svo ofboðslega stór og þungur.“

Hópurinn gæti stækkað

Friðrik varar við því að einstaklingum og fjölskyldum í greiðsluerfiðleikum kunni að fjölga.

„Við erum með sorglega stóran hóp í greiðsluerfiðleikum og ört vaxandi. Það er sem betur fer dágóður kjarni sem er í miðjunni sem er ekki kominn í greiðsluerfiðleika en er samt sem áður að safna skuldum og kemur ýmist út á sléttu eða getur lagt eitthvað örlítið fyrir um mánaðamót. Það er hinn breiði hópur í miðjunni. Í efra laginu er svo hlutfallslega fámennur hópur, um 30% heimilanna, sem stendur þokkalega vel og telur þetta ekki snerta sig.

Ef að við missum miðjuhlutann niður í greiðsluerfiðleika, fjárræðisskerðingu og í gjaldþrot erum við að ræða um margra ára erfiðleika fyrir atvinnulífið í heild. Stóriðjulausnir munu þá ekki duga til,“ segir Friðrik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert