Stjórn Ljósmæðrafélags Íslands lýsir þungum áhyggjum af þeim óraunhæfa niðurskurði sem boðaður er í heilbrigðisþjónustunni á næsta ári. Fram kemur í yfirlýsingu frá félaginu að ljóst sé að þessar niðurskurðarkröfur muni hafa gífurleg áhrif á flestar fæðingadeildir landsins.
Yfirlýsing stjórnar Ljósmæðrafélags Íslands er eftirfarandi:
„Stjórn Ljósmæðrafélags Íslands lýsir þungum áhyggjum af þeim óraunhæfa niðurskurði sem boðaður er í heilbrigðisþjónustunni á næsta ári. Þegar hefur sparnaður heilbrigðisstofnana leitt til skerðingar á þjónustu við barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra og óttast ljósmæður að öryggi og lagalegum réttindum skjólstæðinga sé ógnað. Ljóst er að þessar niðurskurðarkröfur muni hafa gífurleg áhrif á flestar fæðingadeildir landsins, nái þær fram að ganga.
Sundraðar fjölskyldurÍ nýútkominni skýrslu Ljósmæðrafélagsins um barneignarþjónustu á Íslandi 2010, kemur fram að þónokkur hluti foreldra þarf að sækja grunnheilbrigðisþjónustu á borð við fæðingarhjálp, um langan veg. Þessar fjölskyldur þurfa oft á tíðum að flytja búferlum í allt að mánaðartíma þangað sem þjónustuna er að hafa, ýmisst öll fjölskyldan eða hluti hennar. Ef enn þrengir að barneignarþjónustu á landsbyggðinni, mun þessi hópur stækka til muna. Ljósmæður telja þessar aðstæður ekki bjóðandi og brjóta í bága við lagaleg réttindi allra landsmanna til jafns aðgangs að heilbrigðisþjónustu.
Að kasta barninu út með baðvatninuMikilvægt er að við endurskipulag þjónustu sé litið til heildaráhrifa breytinga, bæði m.t.t. skjólstæðinga, kostnaðar og atvinnu heilbrigðisstarfsmanna. Þekking og reynsla við heilbrigðisþjónustu í barneignarferli tapast þegar þjónustu reynds heilbrigðisstarfsfólks nýtur ekki lengur við og getur slíkur sparnaður hæglega snúist upp í andhverfu sína þegar til lengri tíma er litið. Það er dýrt að spara grunnheilbrigðisþjónustu eins og ljósmæðraþjónustu, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem langur og kostnaðarsamur sjúkraflutningur er stundum eini valkosturinn.
Nú er brýnna en nokkru sinni fyrr að sparnaðaraðgerðir skili raunverulegum sparnaði án þess að látið sé af öryggiskröfum þjónustunnar. Ein leið til sparnaðar er að auka einstaklingsbundna samfellda, hagkvæma og faglega heilbrigðisþjónustu utan stofnana eins og heimaþjónustu ljósmæðra í sængurlegu sem með styttingu sængurlegu á stofnunum, hefur sparað heilbrigðisyfirvöldum hundruðir milljóna.
Grunnheilbrigðisþjónusta í heimabyggðLjósmæðrafélag Íslands leggur áherslu á að skilgreina, viðhalda og styrkja grunnheilbrigðisþjónustu. Ennfremur að endurskoða, samþætta og nýta sérhæfða þekkingu heilbrigðisfagfólks á hagkvæman og skynsaman hátt innan heilbrigðiskerfisins. Það kallar á heildstæða stefnumótun barneignar – og heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Meðgönguvernd, fæðingarhjálp, sængurlega og ungbarnavernd er hluti af grunnheilbrigðisþjónustu sem tryggja þarf og veita sem næst fjölskyldunni í heimabyggð.“