„Ég hefði aldrei trúað því að ég ætti eftir að fara þarna. Mér leið ömurlega, en það var rosalega vel tekið á móti mér,“ segir einstæð, þriggja barna móðir, sem leitaði í fyrsta sinn til Fjölskylduhjálpar í gær.
Óvenjumargir sóttu matarúthlutanir í gær, miðað við hve stutt er frá mánaðamótum, eða um 550 fjölskyldur til Mæðrastyrksnefndar og 510 til Fjölskylduhjálpar. Hópurinn er jafnan stærstur í lok mánaðar þegar laun og bætur eru uppurin, að því er segir í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.
„Yfirleitt hefur þetta sloppið hjá mér fram í síðustu viku mánaðarins en um leið og einhver aukaútgjöld bætast við þá gengur dæmið ekki lengur upp,“ segir einstæða móðirin. Hún er atvinnulaus og fleytir sér áfram á bótum, 140 þúsund krónum á mánuði. Hún segist eiga góða að og hún hafi fengið lán hjá fjölskyldunni en sé hætt því, enda líði henni illa yfir að láta aðra halda sér uppi.