Dæmi eru um að eldra fólk taki út sparnað sinn úr bönkum og geymi hann í bankahólfum. Ástæðan er neikvæðir vextir, hækkandi fjármagnstekjuskattur og einnig að fjármagnstekjur skerða bætur frá TR.
Helgi K. Hjálmsson, formaður Landssambands eldri borgara, segist kannast vel við þetta. Fólk hafi gert þetta og eins hafi hann orðið var við að fólk sé að tala um að hætta að geyma peninga á bankareikningum.
„Fólk sem hefur nurlað einhverjum peningum saman er í vaxandi mæli að tala um að taka þá bara út og leigja sér bankahólf vegna þess að vextir af þessum peningum eru neikvæðir þegar þú ert búinn að borga skattinn og svo ertu skertur af Tryggingastofnun líka. Þetta er í vaxandi mæli og ekkert óeðlilegt að þetta sé gert. Þetta er bara sjálfsbjargarviðleitni,“ segir Helgi í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.