„Mér finnst þetta mjög illa að mér vegið,“ segir Sigurður Haraldsson um brottrekstur sinn frá Securitas eftir að fréttamyndir bárust af mótmælum hans við ráðherrabifreið Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra á mánudagskvöldið. Sigurður hefur áður mótmælt en hann segist eindreginn friðarsinni.
„Ég kann enga skýringu á því hvers vegna mér var sagt upp. Ég ber engan kala til þessara manna,“ segir Sigurður og á við stjórnendur Securitas.
Hann hafi umrætt kvöld mótmælt með kröfuspjaldi þar sem ráðherrunum var ekið frá lóð Alþingis en þá vildi ekki betur til en svo að bifreið Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra var ekið á hann.
Sigurður reiddist þá mjög og sló mótmælaskilti sínu í þak ráðherrabifreiðar Steingrims án þess þó að skemma hana, að því er hann fullyrðir.
Á sama tíma hafi unglingar með járnrör valdið miklum skemmdum á bifreið Steingríms og m.a. brotið rúðu. Hann hafi ekki getað komið í veg fyrir það þótt hann vildi.
Sýndi starfsmönnum Securitas skírteini sitt
Aðspurður um forsögu málsins kveðst Sigurður hafa sýnt skírteini sitt er hann tók þátt í mótmælum fyrir utan Seðlabanka Íslands og eitt útibúa Landsbankans í kjölfar bankahrunsins. Hann hafi í bæði skipti sýnt starfsmönnum Securitas skírteini sitt sem starfsmaður fyrirtækisins á Akureyri, til merkis um að hann væri þar starfsmaður sem væri að nýta sinn lýðræðislega rétt.
Jafnframt hafi hann tekið þátt í útimótmælum í Reykjavík og þá reynt að nýta þekkingu sína á mannfjöldastjórnun til að liðsinna lögreglunni.
Því sé ómaklegt að vísa honum frá störfum á grundvelli óspekta. Hann hafi þvert á móti lagt sitt á vogarskálar friðsamra mótmæla og þannig nýtt sinn lýðræðislega rétt sem Íslendingur.
Sigurður tekur fram að hann hafi starfað í þrjú ár samfleytt fyrir Securitas í Reykjavík og svo í sjö ár í hlutastarfi hjá fyrirtækinu á Akureyri í sérverkefnum. Sigurður ítrekar einnig að hann sé afar þakklátur fyrir samstarfið við Securitas sem hann segir „frábært fyrirtæki“.