Ræddi Icesave við Cameron

David Cameron formaður Íhaldsflokksins ávarpar þing flokksins í Birmingham
David Cameron formaður Íhaldsflokksins ávarpar þing flokksins í Birmingham Reuters

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins átti síðdegis á þriðjudaginn einkafund með David Cameron forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga breska Íhaldsflokksins. Fundur Bjarna og Cameron fór fram í Birmingham en þar stendur yfir flokksþing breska Íhaldsflokksins. Ræddu þeir meðal annars Icesave deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga.

Ræddu bæði Icesave og ESB

Í fréttatilkynningu kemur fram að David Cameron og Bjarni ræddu sameiginlega hagsmuni Íslands og Bretlands. Þá fóru þeir yfir stöðuna í breskum og íslenskum stjórnmálum og Bjarni skýrði frá sjónarmiðum Íslendinga í Icesave-málinu.  Flokksleiðtogarnir ræddu auk þess Evrópumálin og Evrópusamrunann.    

Bjarni sagði eftir fundinn: „Mikilvægt var að eiga fund með Cameron og það er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að eiga í góðu sambandi við leiðtoga annara þjóða,“ segir í tilkynningu.

Gagnlegir fundir að mati Bjarna

Þá ræddu þeir Cameron og Bjarni breska Íhaldsflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Þar skiptust þeir á skoðunum um sýn og stefnu flokkanna.
Fyrr um daginn átti Bjarni fund með William Hague, utanríkisráðherra Bretlands þar sem þeir ræddu stöðuna í stjórnmálum í löndunum tveimur, Evrópumálin og Icesave-deiluna.

Bjarni sagði eftir fundina að það hefði verið mjög mikilvægt að hitta forsætis- og utanríkisráðherra Bretlands. Bjarni sagði:  „Fundirnir voru gagnlegir og á þeim tókst að koma á framfæri við æðstu ráðamenn Bretlands, málum sem varða þjóðarhag Íslendinga."
 

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert