Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja á tímabilinu frá október 2008 til ársloka 2009. Er það lagt til þar sem umræða hafi átt sér stað um starfsemi og ákvarðanatöku fjármálafyrirtækja síðan í október 2008 og tortryggni verið mikil í þeirra garð.
Fyrsti flutningsmaður er Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, en með honum eru þingmenn úr Samfylkingunni og Framsóknarflokki. Frumvarpið er að nokkru leyti byggt á lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, þ.e. um rannsóknarnefnd Alþingis.
Markmið frumvarpsins er að skapa traustan farveg fyrir umræðu um starfsemi og ákvarðanatöku fyrirtækjanna. Lögð er til stofnun sérstakrar nefndar sem verði sjálfstæð og óháð og skuli fara yfir starfsemi fjármálafyrirtækjanna frá október 2008 til ársloka 2009.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að frá setningu neyðarlaganna svokölluðu og fram til ársloka 2009 var ekkert eftirlit með því hvernig fjármálafyrirtæki tóku ákvarðanir um afskriftir skulda, fjárhagslega endurskipulagningu og fleira því tengt. Sérstaklega á nefndin að huga að því, með almannahagsmuni að leiðarljósi, að birta í skýrslunni upplýsingar um hvaða aðilar hafi fengið felldar niður skuldir sínar við fjármálafyrirtæki.