„Sárt er að horfa upp á afleiðingar efnahagshrunsins,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í dag þegar hún gaf munnlega skýrslu um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu bankanna. Hún sagið hins vegar að efnahagsbatinn sem koma mun öllum til góða sé í augsýn.
Jóhanna sagði að á milli 230-240 eignir einstaklinga færu að óbreyttu á nauðungarsölu í október. Reynt sé að hafa samband við þá alla þessa daganna og reyna leita lausna hjá þeim. Þeir fái meðal annars flýtimeðferð hjá umboðsmanni skuldara. Hún sagið að á Íslandi eigi enginn að þurfa vera heimilislaus vegna skuldavanda.
Jóhanna sagði að unnið hefði verið að heilum hug að endurreisninni og skuldavandanum. Mótmælin á mánudag hefðu verið eðlileg í ljosi þess að afleiðingar hrunsins skelli nú á af fullum þunga. Hún benti á að Ísland sé að sigla í gegnum eina dýpstu efnahagskreppu sem dunið hefur yfir vestræna þjóð. Það verði að muna.
Þá vitnaði forsætisráðherra í reynslu Finna og þann lærdóm sem Íslendingar geti dregið af þeim. Svo virðist sem betur gangi hér á landi að vinna sig út úr kreppunni, en þó hafi aldrei hvarflað að henni að verkefnið yrði auðvelt.