Skipa þarf nýja hæstaréttardómara

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson Ómar Óskarsson

Dómsmálaráðherra segir rétt að álag á dómskerfið verði gríðarlegt vegna málaferla sem tengast efnahagshruninu, og við bætist að landsdómur verður kallaður saman. Hann segir að nýir hæstaréttardómara verði skipaðir tímabundið á meðan aðalmeðferð fer fram í landsdómi.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hóf umræðu utandagskrár um stöðu Hæstaréttar Íslands í ljósi málaferla fyrir landsdómi. Sigurður Kári sagði dómstólanavið það að springa vegna málafjölda og fleiri séu í farvatninu. Við þær aðstæður hafi svo verið ákveðið að kalla saman landsdóm, þar sem fimm reyndustu dómarar Hæstaréttar munu sitja og geri vart mikið annað á meðan málarekstri stendur. Sigurður Kari sagði að gera mætti ráð fyrir að það tæki óralangan tíma og raunveruleg hætta væri á því að dómskerfið fari á hliðina.

Sigurður Kári minnti jafnframt á að dómsmálaráðherra hefði greitt atkvæði með því að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, sagðist hafa fundað með forseta landsdóms sem jafnframt er forseti Hæstaréttar og óskað eftir skýrslu um stöðu mála, og einnig hvar snertir hugsanlegar lagabreytingar sem þarf að gera og varðandi fjárveitingar sem þarf til landsdóms.

Ráðherrann sagði jafnframt að óvíst væri hversu lengi landsdómur starfar og því óvíst hversu lengi umræddir dómarar Hæstaréttar verði frá störfum þar. Hins vegar sé ljóst að á meðan aðalmeðferð fyrir landsdómi stendur þurfi að skipa nýja dómara við Hæstarétt tímabundið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert