Stjórnvöld á móti fjárfestingu

Frá framkvæmdum í Helguvík.
Frá framkvæmdum í Helguvík. Rax / Ragnar Axelsson

„Ísland er í þeirri stöðu nú að opinber útgjöld verða að aðlagast hinum efnahagslega veruleika. Því lengur sem það dregst þeim mun meiri verður vandinn í nánustu framtíð,“ skrifar Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í harðorðum pistli um atvinnustefnu stjórnvalda.  

Hannes ræðir stöðuna í þjóðmálum í pistli á vefsíðu samtakanna. 

„Án öflugs atvinnulífs verður ekki til öflugt velferðarkerfi. Á síðustu öld eru dæmi til um ríki sem komu tímabundið upp öflugu velferðarkerfi sem verðmætasköpun og atvinnulíf reis ekki undir. Afleiðingarnar urðu ætíð hörmulegar og mikill niðurskurður fylgdi í kjölfarið. Ísland er í þeirri stöðu nú að opinber útgjöld verða að aðlagast hinum efnahagslega veruleika. Því lengur sem það dregst þeim mun meiri verður vandinn í nánustu framtíð. Það eina sem getur dregið úr niðurskurðarþörf hins opinbera er vöxtur í atvinnulífinu.

Gamalt og einfalt slagorð norrænna krata, sem raunar á uppruna sinn í Bandaríkjunum, er að það sem er gott fyrir fyrirtækin er gott fyrir landið. Á þeirri stoð hvíla norræn velferðarkerfi. Atvinnulífið skapar störfin og verðmætin sem eru grundvöllur skatttekna sem standa undir rekstri hins opinbera og allri velferðarþjónustu. Þess vegna verður að skapa atvinnulífinu ákjósanleg skilyrði til þess að vaxa og sækja fram. Þetta einfalda orsakasamhengi virðist vefjast fyrir mörgum um þessar mundir.“

Svandís tefur fyrir framkvæmdum

Hannes sakar Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra tefja fyrir verklegum framkvæmdum í landinu.

Það þarf ekki að koma neinum sérstaklega á óvart að umhverfisráðherra hafi nýlega ákveðið að áfrýja til Hæstaréttar dómi héraðsdóms um aðalskipulag í Flóahreppi. Það mun enn tefja nýtingu hagkvæmasta og umhverfisvænsta virkjunarkosts sem völ er á í landinu og seinka uppbyggingu atvinnu og endurheimt lífskjara og velferðar. Þessi áfrýjun rifjar upp fyrirheit í stöðugleikasáttmálanum sáluga sem meðal annars kvað á um að kappkostað yrði að engar hindranir yrðu af hálfu stjórnvalda í vegi tiltekinna stórframkvæmda eftir 1. nóvember 2009.“

Stjórnvöld koma í veg fyrir fjárfestingar 

Sú töf sé hluti af atvinnustefnu stjórnvalda. 

„Á fjölmörgum sviðum birtist atvinnustefna stjórnvalda í því að koma í veg fyrir fjárfestingar og sköpun nýrra starfa því þau virðast ekki vera í réttum greinum eða á vegum réttra aðila. Dugi það ekki til eru fundnar aðrar tylliástæður. Nægir að nefna áform um álver í Helguvík, gagnaver og einkasjúkrahús eða deilur í tengslum við eignarhald HS orku og aðstöðu hollenska fyrirtækisins ECA á Keflavíkurflugvelli.

Þegar kemur að skattamálum er afstaða stjórnvalda til atvinnulífsins ekki vinsamleg og ekki til þess fallin að örva fjárfestingar og hagvöxt og þar með tekjugrundvöll hins opinbera. Þvert á móti stuðla áform um skattahækkanir á atvinnulífið á næsta ári og þær sem lögfestar voru í lok síðasta árs að því að draga úr fjárfestingum innlendra aðila og hrekja burt erlenda fjárfesta.“

Lamandi áhrif skattahækkanna 

Hannes gagnrýnir skattahækkanir ríkisstjórnarinnar og segir þær leggja lamandi hönd á atvinnulíf í landinu.

„Fjárfestingar í atvinnulífinu eru forsenda samkeppnishæfni og hagvaxtar. Án fjárfestinga skapast engin ný störf og grunnur þeirra sem fyrir eru veikist smám saman þar til þau hverfa að lokum. Í því ljósi valda áform stjórnvalda um enn frekari hækkun fjármagnstekjuskatts og tekjuskatts fyrirtækja á næsta ári miklum áhyggjum. Þetta mun draga úr arðsemi fjárfestinga og slá hugsanlega fjárfestingarkosti út af borðinu.

Tíðar hækkanir þessara skatta skapa auk þess óstöðugleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja sem augljóslega dregur úr fjárfestingarvilja þeirra. Þá vekur undrun að skatti á fjármagnstekjur og tekjuskatti fyrirtækja er ætlað að skila sjö milljörðum króna meira til ríkissjóðs á næsta ári en þessu, eða 17% hærri fjárhæð, þrátt fyrir hjaðnandi verðbólgu og mikið uppsafnað tap fyrirtækja á undanförnum árum.“

Hannes G. Sigurðsson er forstöðumaður hagdeildar Samtaka atvinnulífsins og jafnframt …
Hannes G. Sigurðsson er forstöðumaður hagdeildar Samtaka atvinnulífsins og jafnframt aðstoðarframkvæmdastjóri samtakanna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka