„Ég tek undir orð Bergs. Mér finnst þessi vinnubrögð ekki til fyrirmyndar,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingar, um þau ummæli sveitarstjóra Norðurþings að ekkert samráð hafi verið haft við heimamenn vegna niðurskurðar í heilbrigðismálum. Sigmundur styður ekki niðurskurðinn.
„Mér finnst það afskaplega undarlegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að fara fram með kerfisbreytingu á heilbrigðisþjónustu landsmanna sem er ákveðin af embættismönnum í 101-Reykjavík án nokkurar pólitískrar umræðu og raun án pólitísks umboðs.
Það er pólitíkin sem á að taka svona veigamiklar breytingar um kerfisbreytingar á samfélaginu. Hér í þessu efni var skotið fyrst og spurt svo og þannig gera menn ekki með viðkvæma málaflokka.“
Styður ekki yfirgengilegan niðurskurð
- Bergur Elías tekur dramatískt til orða, segir að fólki hafi brotnað niður þegar tíðindi af niðurskurðinum bárust. Verður ekki erfitt fyrir þig sem þingmann kjördæmisins að mæta á fundinn á Húsavík á eftir?
„Nei. Ég hef sagt það bæði í ræðu og riti og í mínum þingflokki að ég mun ekki styðja þennan yfirgengilega niðurskurð. Ef þetta verður ekki lagað í þinglegri meðferð fjárlagafrumvarpsins að þá vil ég ekki styðja þetta fjárlagafrumvarp.“
Atvinnumálin þokast hægt
- Nú hefur þú látið þau orð falla í viðtali við Birki Jón Jónsson, þingmann Framsóknar, í þætti hans á ÍNN, að þú gefir stjórninni nokkurra vikna frest til að koma hreyfingu á uppbyggingu atvinnuveganna. Hvernig hafa málin þokast síðan?
„Þau hafa þokast alltof lítið. Ég vil sjá að við leitum allra leiða til að koma orkunni okkar í verð og látum hana fara að vinna fyrir okkur. Þetta er sjálfbær orkuauðlind sem við eigum að láta vinna fyrir okkur. Á hitt ber að líta að það hefur gengið erfiðlega að fá lánsfjármagn til að koma þessum hlutum í verk. Þess sér stað í Helguvík og á Þeistareykjum.
Ég get ekki betur séð en að allar aðstæður séu til staðar til að fara af stað en það vantar fjármagn [...] Það hefur verið meira fundað en minna framkvæmt. Ég tel að margir hópar sem koma að þessu máli hafi verið of svifaseinir; stjórnvöld, lífeyrissjóðir, bankastofnanir og fleiri aðilar.“
Stjórna ekki viðskiptalífinu
- En er ekki ábyrgðin hjá ríkisstjórninni?
„Hún er mjög mikil hjá okkur en við stjórnum ekki viðskiptalífinu. Viðskiptalífið stjórnaði stjórnmálunum áður fyrr en það er ekki búið að snúa þessu alveg við,“ segir Sigmundur Ernir.