„Þungt högg fyrir Suðurnes“

Frá Sandgerði.
Frá Sandgerði.

Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar mótmælir eindregið fyrirhuguðum tillögum um niðurskurð á heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum sem fram koma í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011. Telur bæjarstjórnin niðurskurðinn „þungt högg“ fyrir íbúa Suðurnesja nú þegar þeir glími við mikið atvinnuleysi.

Í tilkynningu frá bæjarstjórninni segir að heilbrigðisþjónusta fyrir íbúa Suðurnesja muni skerðast stórlega. Hætt sé við að mannauður hverfi úr landi. 

„Niðurskurður í heilbrigðisþjónustu er þungt högg fyrir þær þúsundir einstaklinga á Suðurnesjum sem lifað hafa í skugga langvarandi atvinnuleysis og eru að missa heimili sín. Fjárlagatillögurnar eru ávísun á frekara atvinnuleysi 60 -100 manna þar sem heilbrigðisstarfsmönnum verður bætt í raðir atvinnulausra og hætta er á því að mannauður hverfi úr landi.

Heilbrigðisþjónusta við íbúa verður stórlega skert ef fram fer sem horfir. Fæðingardeild og sjúkradeild leggjast af. Heimahjúkrun riðar til falls. Þessar þrjár mikilvægu stoðir í heilbrigðisþjónustu við íbúa Suðurnesja eru að bresta.

Þessar aðgerðir koma í kjölfar umdeildra lokana heilsugæslustöðva í Sandgerðisbæ, Sveitarfélaginu Garði og Sveitarfélaginu Vogum.

Benda má á að framlög ríkisins til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í samanburði við aðrar heilbrigðisstofnanir hafa hlutfallslega verið og eru ennþá lægri en til annarra heilbrigðisstofnana miðað við íbúafjölda og enn hefur ekki verið tekið mið af nærveru stofnunarinnar við Keflavíkurflugvöll í fjárveitingum til hennar.“

Engin rök fyrir niðurskurðinum

Bæjarstjórnin telur boðaðan niðurskurð óskynsaman í ljósi þess að hagkvæmara sé að sinna hluta þjónustunnar í heimabyggð. 

„Engin sparnaðarrök mæla með því að flytja nærþjónustu við aldraða sjúka, fæðandi konur, hjartasjúklinga, krabbameinssjúklinga, líknandi meðferð deyjandi sjúklinga, lungnasjúklinga, sjúklinga í endurhæfingu og aðra sjúka og langveika af svæðinu, þegar sýnt hefur verið fram á að þessir þættir eru hagkvæmar reknir á HSS en LSH.

Það er einnig vandséð hvaða þjóðhagfræðilegu rök hníga að því að hagkvæmara geti verið að flytja slíka þjónustu fjær notendum og ætla þeim og ættingjum þeirra 100 km akstur í hverri heimsókn.

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra voru höfð skýr orð um að vilji stjórnvalda standi til að starfa með íbúum Suðurnesja að lausnum á fjölþættum vanda af völdum efnahagskreppu og atvinnuleysis. Hér er tækifæri til að athafnir fylgi orðum.

Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar skorar á þingmenn Suðurkjördæmis, þingheim allan og Ríkisstjórn Íslands að koma í veg fyrir að niðurskurðartillögur þessar verði að veruleika.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert