Nokkra augljósa veikleika er að finna í fjárlagafrumvarpinu, samkvæmt nýju fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins. Telja samtökin að veikleikar þeir sem einkenna frumvarpið kosti 20-30 milljarða króna.
Spáð er 3,2% hagvexti árið 2011 líkt og gert er ráð fyrir í þjóðhagsspá Hagstofunnar frá í júní sl. Í ágúst spáði Seðlabankinn um 2,4% hagvexti.
Frá þeim tíma hefur orðið enn frekari seinkun á fjárfrekum framkvæmdum. Samdráttur í opinberum framkvæmdum dregur enn úr hagvexti. Því eru líkur á óverulegum hagvexti næsta ári. Gangi það eftir leiðir það beint til 10-15 ma.kr. minni tekna ríkissjóðs, segir í fréttabréfi SA.
Fyrirhugaður sparnaður í rekstri skólakerfisins og heilbrigðiskerfisins er lítt eða ekkert útfærður og hefur m.a. komið stjórnendum heilbrigðisstofnana úti á landi í opna skjöldu, segja atvinnurekendur enn fremur.
„Sparnaður í skólakerfinu næst ekki fyrr en við upphaf næsta skólaárs sem hefst 1. ágúst nk. Lauslega má áætla að veikleiki í sparnaði stofnana þessara ráðuneyta sé á bilinu 2,5-3 ma.kr."