VG í Norðurþingi mótmælir niðurskurði

Fundur V-listans, lista Vinstri grænna, félagshyggju- og umhverfisverndarfólks í Norðurþingi, haldinn á Húsavík í kvöld, mótmælir harðlega framkomnum hugmyndum um niðurskurð á fjárveitingum til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Ef af honum verði muni það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir búsetu og mannlíf á öllu starfssvæði stofnunarinnar, bæði í bráð og lengd.

„Með því að leggja niður sjúkrahússtarfsemi á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga væri þjónustan færð fjær íbúum á stóru svæði í Þingeyjarsýslum með tilheyrandi öryggisleysi, óþægindum og útgjöldum fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. Þar við bætist það ófremdarástand sem hlytist af því að segja yrði 70 manns upp störfum sem jafngildir því að 3000 manns í Reykjavík misstu vinnuna. Þá ber að hafa í huga að HÞ hefur ásamt Framhaldsskólanum á Húsavík, Sýsluskrifstofunni og Náttúrustofu Norðausturlands gegnt stóru hlutverki í að laða ungt fólk til starfa í Þingeyjarsýslum að loknu námi,“ segir í ályktun V-listans í Norðurþingi, sem er í kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra og formanns Vinstri grænna.

Þar segir ennfremur að fyrir liggi að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sé ekki í stakk búið til að taka við þeirri starfsemi sem ráðuneyti velferðarmála hyggst færa þangað frá Húsavík og öðrum byggðakjörnum á Norðurlandi. Hér sé því á ferðinni leikur að tölum en ekki raunhæf tillaga að leið til að spara almannafé.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka