Þverpólitískur hópur um umbætur á efnahagskerfinu (IFRI) leggur til að tekin verði upp vaxtalaus peningaútgáfa á Íslandi. Þá leggur hópurinn til að stórar lántökur fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og að fram fari aðskilnaður fjárfestinga- og viðskiptabanka.
Tillögur hópsins sem kynnti stefnu sína á opnum fundi í Norræna húsinu síðdegis í gær eru í 10 liðum og má nálgast hér. Þá var rætt við tvo fulltrúa hópsins á mbl.is undir miðnætti mótmælakvöldið 4. október.
Fulltrúar hópsins eru Þórarinn „Haki“ Einarsson, aðgerðasinni, Pétur Einarsson, myndatökumaður, Sigurður Eggertsson, tölvunarfræðingur, Stefanía Marínósdóttir, bókari, Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur, Ólafur Ragnar Ólafsson, verkfræðinemi, Jörmundur Ingi, Reykjarvíkurgoði, Valdimar Ágúst Eggertsson nemi og Jón Þór Ólafsson, stjórnmálafræðingur.
Að sögn Ólafs Ragnars má rekja upphaf hópsins til þess er Jón Þór flutti erindi um efnahaginn í Húsinu í höfðatúni snemma í sumar. „Þá spratt strax upp hópur áhugasamra þar, svo var annar hópur sem hafði frumkvæði um komu Bill Still, kvikmyndagerðamanns og blaðamanns, hingað til lands. IFRI hópurinn verður svo til af áhugasömum sem komu frá þessum tveim hópum,“ segir Ólafur Ragnar.
Reynsla síðustu alda
Fram kemur í inngangi að tillögum hópsins að endurskoða þurfi fjármálakerfi landsins.
„Fjármálasaga heimsins undanfarnar aldir hefur að okkar mati verið ævintýri líkust. Færa má rök fyrir því að erlendis hafi þróun bankastarfsemi, skuldabréfamarkaðar og hlutabréfamarkaðar, byggst á tilraunum og græðgi þröngra sérhagsmunahópa. Þar hafa spilling, svik og prettir hafa komið nokkuð við sögu, svo vægt sé til orða tekið.
Okkur virðist sem íslenska fjármálakerfið byggi að nokkru á erlendri fyrirmynd. Hér kynnum við 10 tillögur sem urðu efstar á blaði hjá starfshópnum um úrbætur á íslensku fjármálakerfi. Þetta er ekki tæmandi listi en markmiðið er fyrst og fremst að skapa almenna umræðu um fjármálakerfi okkar Íslendinga, sem leiðir vonandi til úrbóta í formi lagasetninga á Alþingi, þar sem þurfa þykir.“
Aðskilnaður er lykilatriði
Tvær fyrstu tillögurnar eru sem hér segir:
1) Aðskilnaður fjárfestinga- og viðskiptabanka.
„Aðskilnaður er lykilatriði, þar sem áhætta er annars vegar og öryggi hinsvegar. Hér er verið að vísa til svokallaðra Glass - Steagall laga, sem samþykkt voru í Bandaríkjunum árið 1933, í kjölfar hrunsins árið 1929.
Í raun er tilgangurinn sá að aðskilja áhættuna af þessum rekstrarformum, fjárfestingabanka annars vegar og viðskiptabanka hins vegar. Umbætur á þessu sviði eru að okkar mati nauðsynlegar á Íslandi, ekki bara með vísan til þessara bandarísku laga, heldur er það grundvallaratriði að skilgreina og aðgreina bankastarfsemi af þessu tagi.
Umbætur í þessa veru verða að eiga sér stað með aðkomu almennings og verða að vera fyrir opnum tjöldum. Markmiðið ætti að vera að takmarka ábyrgð skattgreiðenda á bankakerfinu. Starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka þarf að skilgreina með tilliti til fjárfestingarstefnu söfnun innlána og stærð bankanna, svo eitthvað sé nefnt. Jafnvel mætti lagskipta fjármálakerfinu eftir áhættu, þar sem greiðslumiðlun er neðsta lagið, viðskiptabanki næsta lag og fjárfestingabanki rekur lestina.
Þess má að lokum geta að Glass - Steagall lögin svokölluðu voru afnumin í Bandaríkjunum þann 12. nóvember árið 1999. Sumir telja að afnám þessara laga hafi átt stóran þátt í því hruni sem varð haustið 2008.“
Þáttur vaxtagreiðslna
2) Íþyngjandi vaxtagreiðslur?
„Að sögn eru um 2.000 milljarðar íslenskra króna geymdar hjá íslenskum fjármálastofnunum. Sé það rétt kostar hvert vaxtaprósent 20 milljarða á ári. Miðað við 10 prósent vexti er vaxtagjaldið 200 milljarðar á ári. Hverjir borga þessa milljarða? Spurningin er hversu hátt hlutfall vaxtagjalda rennur úr vasa lántekenda og hversu hátt hlutfall rennur úr sjóðum Seðlabankans? Er réttlætanlegt að einkabankar fái vaxtatekjur af þeim fjármunum sem geymdir eru hjá Seðlabankanum, sem þjóðin greiðir á endanum?
Um þennan lið er brýnt að sem fyrst fari fram ítarleg umræða.
Á undanförnum áratugum hefur stöðugt verið rætt um að verðbólga sé búin til og notuð til þess að hygla fjármagnseigendum á kostnað skattgreiðenda og lántakenda.
Hátt vaxtastig fer út í verðlag á vöru og þjónustu, sem leiðir til aukinnar verðbólgu. Það leggur auknar byrðar að herðar skattgreiðenda og lántakenda. Einkabankar verða einfaldlega að starfa undir lögmálum framboðs og eftirspurnar, þegar kemur að lánveitingum, þar sem ábyrg útlánastefna á hóflegum vöxtum skilar árangri. Það má segja að það sé um of stutt við stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækja, sem stóla á belti og axlabönd, sem byggir á þeirri fléttu sem hér hefur verið lýst.
Það mætti færa fyrir því rök að þetta sé skipulögð starfsemi.“
Að lokum má geta þess að hópurinn er með Facebook-síðu.