Skipulagi heilbrigðisstofnana verður breytt til að greiða fyrir aðkomu sveitarstjórna og starfsfólks á hverju þjónustusvæði að stjórnum þeirra, fái þingsályktunartillaga nokkurra þingmanna Vinstri grænna brautargengi.
Þingsályktunin er endurflutt frá fyrra þingi og Ásmundur Einar Daðason er fyrsti flutningsmaður hennar, að því er segir í tilkynningu frá Ásmundi.
Fram kemur að lengi vel hafi sveitarstjórnir á þjónustusvæði tilnefnt þrjá fulltrúa í fimm manna stjórn heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildasjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa. Starfsmenn hafi tilnefnt einn og sá fimmti hafi verið skipaður af heilbrigðisráðherra án tilnefningar.
Árið 2003 hafi lögum um heilbrigðisþjónustu verið breytt á þann veg að forstöðumaður stofnunarinnar hefði einn umsjón með rekstri þeirra en stjórnirnar hafi verið lagðar niður. Þær höfðu þó aðeins verið ráðgefandi um skipulag og þjónustu stofnananna auk þess að hafa eftirlit með rekstri þeirra.
Ásmundur segir í tilkynningu að það hafi komið glögglega í ljós eftir að fjárlagafrumvarpið hafi verið kynnt hversu vanhugsað það hafi verið á sínum tíma að afnema stjórnir heilbrigðisstofnana.
„Það á ekki að vera mögulegt að skerða nærþjónustu í heimabyggð með því að gjörbylta skipulagi heilbrigðisþjónustunnar án þess að heimamenn séu hafðir með í ráðum. Hefði verið búið að endurreisa stjórnir heilbrigðisstofnana væri nú lögbundið að vinna slíkar tillögur í samráði við heimamenn. Ásmundur segist einnig telja að fjárlaganefnd eigi að endurskoða frá grunni þessar niðurskurðartillögur og að höfðu samráði við heimamenn.
Með þessari tillögu er heilbrigðisráðherra falið að undirbúa og fram lagafrumvarp sem endurreisir stjórnir heilbrigðisstofnana í svipuðum anda og fyrr. Í gegnum þær sé samráð tryggt við samfélagið og byggt á reynslu vinnustaðarins á hverjum stað,“ segir í tilkynningunni.