Á annað þúsund mótmæla í Eyjum

Mótmælt í Vestmannaeyjum síðdegis
Mótmælt í Vestmannaeyjum síðdegis mbl.is/Júlíus Ingason

Á annað þúsund Eyjamenn mættu á mótmælafund í Stakkó í Vestmannaeyjum síðdegis, samkvæmt upplýsingum frá Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Vestmannaeyja. Hann sagði í ræðu sinni á fundinum að verði hugmyndir ríkisstjórnarinnar að veruleika er verið að leggja heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum niður í þeirri mynd sem við nú þekkjum með skertum lífsgæðum og brostnum forsendum búsetu.
 
„Nú árið 2010 stöndum við Eyjamenn frammi fyrir ógn.  Þetta er ekki ógn eins og við erum vön.  Þetta er ekki hættan á aflabresti.  Þetta er ekki hættan á því að válynd veður grandi fiskibátum okkar.  Þetta er ekki hættan á því að eldgos eyði hér byggð.  Nei! Þetta er hættan á því að ríkisvaldið leggi hér niður þá heilbrigðisþjónustu sem við þurfum. 

Þetta er hættan á því að borgarmiðuð stjórnvöld skapi hér bráða hættu.  Þetta er hættan á því að sú kreppa sem búin var til á höfuðborgarsvæðinu verði greidd af okkur sem ekki tókum þátt í gengdarlausum dansi um gullkálfinn," sagði Elliði meðal annars í ræðu á fundinum.

Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð

Elliði tók það fram að hann væri ekki ópólitískur en hann er oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn. 

„Þið vitið öll mína pólitíska liti.  Ég ætla ekki að standa hér frammi fyrir ykkur og þykjast hlutlaus.  Ég ætla heldur ekki að halda því fram að sá flokkur sem ég hef lagt lag mitt við eigi ekki þátt í því ástandi sem nú ríkir.  Það var í tíð þess flokks sem ríkisútgjöld voru þanin út.  Það vorum við sem létum það viðgangast að góðærisgeðveiki var leidd inn í fjárlög ríkisins.  En það er ekki það sem skiptir máli í dag. 

Það sem nú skiptir máli er að við Íslendingar rifjum það upp að við erum rúmlega 300.000 manna fiskveiðiþjóð og högum okkur eftir því.  300.000 manna fiskveiðiþjóð getur verið stolt og keik.  Hún getur rekið fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu og menntakerfi.  Hún getur boðið þegnum sínum upp á góðar samgöngur og tryggt þeim hverskonar öryggi. 
 
Hún getur hinsvegar ekki byggt fáheyrðar glanshallir í Reykjavík sem kosta um 30 milljarða með glerhjúpi sem kostar um 3500 milljónir.  Hún getur ekki látið bjóða sér  fjárlög þar sem  söfn, listir og fl. kosta rúmlegar 5000 milljónir, fornleifanefnd sem kostar um 84 milljónir, rekstur ríkisrekins fjölmiðils sem kostar um 3000 milljónir, listamannalaun sem kosta um 409 milljónir, Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis sem kostar rúmlega 300 milljónir," sagði Elliði í ræðu sinni.

Gerði listamannalaun að umræðuefni um niðurskurð í heilbrigðismálum

Hann gerði listamannalaun að umfjöllunarefni í ræðu sinni um niðurskurð á heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum.

„Mig langar að lesa fyrir okkur orðrétt upp úr fjárlögum næsta árs.  Fjárlögum sem boða endalok þeirrar heilbrigðisþjónustu sem við nú þekkjum í Vestmannaeyjum og skattpíningu á launþega.
 
„Listamannalaunum sem úthlutað hefur verið sem starfslaunum verður fjölgað á þriggja ára tímabili um alls 400 þannig að á árinu 2012 verði samtals 1.600 mánaðarlaun til ráðstöfunar til starfslauna og styrkja í stað 1.200 mánaðarlauna nú. „
 
Ég get líka frætt ykkur á því að starfslaun listamanna nema 266.737 kr. á mánuði á verðlagi fjárlaga 2009." 

Elliði Vignisson.
Elliði Vignisson. mbl.is
Frá mótmælum í Vestmannaeyjum í dag
Frá mótmælum í Vestmannaeyjum í dag mbl.is/Júlíus Ingason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert