Aldrei fleiri brautskráðir

Fleiri luku stúdentsprófi en áður
Fleiri luku stúdentsprófi en áður mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Alls brautskráðust 5.689 nemendur af framhaldsskólastigi með 6.404 próf skólaárið 2008-2009. Þetta er fjölgun um 150 nemendur frá fyrra ári, eða 2,7%. Aldrei áður hafa svo margir nemendur útskrifast af framhaldsskólastigi á einu skólaári síðan gagnasöfnun Hagstofu Íslands hófst árið 1995.

Ástæðan er meðal annars sú að stórir árgangar eru að fara í gegnum framhaldsskólann. Stúlkur voru nokkru fleiri en piltar meðal brautskráðra eða 52,9% nemenda, sem er nokkru lægra hlutfall en síðustu tvö ár.

Í fyrsta skipti brautskráðust fleiri en 3.000 stúdentar á einu skólaári

Alls útskrifuðust 3.012 stúdentar úr 33 skólum skólaárið 2008-2009; 204 fleiri en skólaárið áður (7,3% fjölgun) og 457 fleiri en fyrir tveimur árum. Þar munar mestu um tæplega þriðjungsfjölgun brautskráninga úr frumgreinadeildum og viðbótarnámi til stúdentsprófs að loknu list- eða starfsnámi, sem voru alls 601 á skólaárinu. Tveir af hverjum þremur nýstúdentum (66,4%) eru á aldrinum 20-21 árs. Flestir brautskráðust af félagsfræðabraut, 979 talsins, og 944 luku náttúrufræðibraut.

Aldrei áður jafn margir útskrifaðir úr starfsnámi

Brautskráningar úr starfsnámi og almennri braut á framhaldsskólastigi voru 3.366 og hafa ekki verið fleiri á einu skólaári. Brautskráðir nemendur með sveinspróf voru 736 og fjölgaði um 58 frá fyrra ári (8,6%). Karlar eru tæplega 85% þeirra sem ljúka sveinsprófi og eru sveinar flestir í aldursflokknum 25-29 ára. Þá voru 1.555 brautskráningar úr öðru starfsnámi og 313 með grunnpróf, til dæmis grunnpróf í iðn eða almenna braut framhaldsskóla. Brautskráðir iðnmeistarar voru 195 og hafa ekki áður verið fleiri í gagnasöfnun Hagstofunnar.

Fækkun í fyrsta skipti á háskólastigi

Á háskóla- og doktorsstigi útskrifuðust 3.435 nemendur með 3.459 próf skólaárið 2008-2009. Brautskráðum nemendum fækkaði um 171 eða 4,7%. Brautskráðum nemendum á háskólastigi hefur fjölgað ár frá ári frá skólaárinu 1997-1998 þar til nú. Fækkunin stafar aðallega af fækkun brautskráninga með fyrstu háskólagráðu, sem fækkaði um 249 (10,5%). Hins vegar fjölgaði nemendum sem luku meistara- og doktorsgráðu og hafa ekki verið fleiri á einu skólaári. Brautskráðum nemendum með meistaragráðu fjölgaði um 144 (19,6%), úr 735 í 879, og doktorum um 5 (21,7%), úr 23 í 28. Konur voru tæplega tveir þriðju (65,9%) þeirra sem útskrifuðust með háskólapróf, sem er lítið eitt lægra hlutfall en verið hefur undanfarin ár.

Færri luku háskólanámi en áður
Færri luku háskólanámi en áður mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert