„Spurningin var aldrei hvort Ísland vildi borga eða ekki. Spurning snerist um [...] tímavirði upphæðarinnar, vextina sem við þurfum að greiða,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í samtali við eistneska útvarpið í dag en hann er nú í opinberri heimsókn í Eistlandi.
Fram kemur á vef útvarpsins að Össur telji að samningaviðræður Íslendinga, Hollendinga og Breta gangi „býsna vel“.
Þá er haft eftir Össuri að andrúmsloftið í viðræðunum sé nú vinsamlegra en fyrr enda séu kosningar að baki í Hollandi og Bretlandi.
Vekur sú greining athygli enda hafa hollensk stjórnvöld ekki tilkynnt opinberlega að þau séu reiðubúin að draga í land í viðræðunum.