Einar Kr. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ekki sé meirihluti á Alþingi fyrir niðurskurði á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Þetta kemur fram á bloggi þingmannsins. Segir hann ríkisstjórnina bara eiga einn kost, að lýsa því yfir að fallið verði tafalaust frá þessum fyrirætlunum.
„Síðasti sólarhringur eða svo hefur verið örlagaríkur í stjórnmálunum. Við lok gærdagsins lá það fyrir að ekki er þingmeirihluti fyrir umdeildasta þætti fjárlagafrumvarpsins. Niðurskurðinum til heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni. Ríkisstjórnin á núna bara einn kost. Lýsa því yfir að fallið verði tafarlaust frá þessum fyrirætlunum og að við afgreiðslu fjárlaganefndar fyrir aðra umræðu fjárlaganna verði tillögurnar dregnar til baka.
Eigi færri en þrír þingmenn stjórnarliðsins lýstu í gær andstöðu sinni við þá ætlun að skera svona harkalega niður fjármuni til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Sigmundur Ernir Rúnarsson fjárlaganefndarmaður Samfylkingarinnar gerði það strax í gær, undir það tóku Ólína Þorvarðardóttir, Samfylkingu og Ásmundur Einar Daðason, einnig fjárlaganefndarmaður úr VG. En áður hafði Jórunn Einarsdóttir varaþingmaður Atla Gíslasonar VG, gert það í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra," skrifar Einar Kr.