„Fólk sækir í trúna“

Selfosskirkja.
Selfosskirkja. Kristinn Ingvarsson

„Jákvæðu teiknin fyrir kirkjuna er að við höfum aldrei séð jafn öflugt barna- og unglingastarf. Þátttaka í kirkjustarfi hefur aldrei verið betri. Fólk leitar í trúna og þangað sem er svolítið skjól að finna,“ segir Óskar H. Óskarsson, prestur á Selfossi, um ásókn bæjarbúa í kirkjuna.

„Við höfum aldrei séð svona ástand í þjóðfélaginu. Nú þarf maður að standa sig og taka á móti fólki. Við finnum það að fólk leitar til kirkjunnar og þar reynum við að standa okkur eins og allir. Hjá okkur getur fólk hitt annað fólk og fengið styrk og stuðning og skilning.“

Óskar Hafsteinn segir fyrirhugaðan niðurskurð í heilbrigðismálum reiðarslag fyrir bæjarfélagið.

„Fólk er enn þá að vona að þetta verði hreinlega ekki að veruleika. Maður hittir ekki mann á Selfossi nema þetta sé honum efst í huga. Ég upplifi þetta þannig að fólk trúi því ekki að þetta sé að fara að gerast. Það eru erfiðleikar en ekki þessu tengt. En ef þetta yrði að veruleika er það algjört reiðarslag fyrir mikið af heimilum.“

- Upplifirðu vonleysi?

„Já. Það kemur til okkar fólk sem á í gríðarlegum vanda og maður finnur oft á tíðum til vanmáttar síns yfir því að geta ekki orðið því að meira liði. Þetta hefur svo margvísleg áhrif, ekki aðeins fjárhagsleg heldur er þetta gjarnan mjög tilfinningalegt. Þröng fjárhagsstaða fólks hefur áhrif á sambúð fólks og samskiptin við börnin. Það er líka allt undir,“ segir Óskar.

Óskar Hafsteinn Óskarsson.
Óskar Hafsteinn Óskarsson. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert