Hreyfingin vill endurskoða lög um fjármál stjórnmálasamtaka

Þór Saari.
Þór Saari. mbl.is/Ómar

Þingmenn Hreyfingarinnar munu á næstunni leggja fram lagafrumvarp um breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka sem samþykkt voru á Alþingi þann 9.september s.l. Í fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum í dag gagnrýna þingmennirnir lögin og segja þau í andstöðu við afstöðu meirihluta þjóðarinnar og vísa þar til nýlegrar könnunar Capacent Gallup. Hún leiddi m.a. í ljós að afgerandi meirihluti er andvígur því að íslenskum stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilt að taka við fjárframlögum frá fyrirtækjum. 

Hreyfingin vill m.a. banna framlög lögaðila með öllu og hámarka framlög einstaklinga við 200.000 kr. Einnig leggur hún til að framlög einstaklinga sem eru hærri en 20.000 kr. verði skráð og opinberuð. Þá vilja þingmenn flokksins gæta jafnréttis í opinberum framlögum til stjórnmálasamtaka sem bjóða sig fram til Alþingis og segja engin marktæk rök vera fyrir því að stór stjórnmálasamtök þurfi meiri framlög en minni samtök. Þeir leggja einnig til að Ísland leggi bann við auglýsingum stjórnmálasamtaka í ljósvakamiðlum og fylgi þar með stefnu annarra Evrópuríkja.

Í tilkynningunni segir að áheyrnarfulltrúi Hreyfingarinnar hafi reynt að gera breytingar á málinu er það var við vinnslu í allsherjarnefnd en hafi talað þar fyrir daufum eyrum. Frumvarpið hafi verið afgreitt nánast án efnislegrar umfjöllunar þrátt fyrir gagnrýni sem er að finna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fjármögnun stjórnmálasamtaka. Þingmenn Hreyfingarinnar segja það vekja athygli hversu mikið þingmönnum fjórflokksins hafi legið á að afgreiða málið áður en þingmannanefnd, sem falið var að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar, hafði skilað af sér skýrslu sinni þann 11.september,  tveimur dögum eftir að frumvarpið varð að lögum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert